Við hlið vatnsins er eldsmiðjan.  Hún dregur að sér athygli með taktföstum slögum og er eldurinn ætíð aðdráttarafl fyrir unga sem aldna. Unglingarnir sem náð hafa styrk í úlnliðum og vandvirkni reyna á samhæfni hugar og handar og reynir á einbeitinguna því hér er það eldurinn sem er einn af kennurunum og hann brennir járnið ef maður er ekki vakandi. Hið harða og óbeygjanlega lýtur fyrir hita og ákafa eldsins og síðan natni og nákvæmni hugar og handa. Andardrátturinn verður áberandi mikilvægur í hita leiksins. Við vinnum einnig í venusarmálminn kopar, formum með léttum slögum og umbreytum þannig að ferhyrnd koparplata verður að kúlulagaðri skál.  Við hitann frá eldinum gerum við sumar skálarnar eldlitaðar og litir haustsins verða allsráðandi.