Að borða sólina

DÁSAMLEGA HUNANG

Þegar þú borðar hunang þá ertu að borða sólina. Hunang sem varð til vegna krafta sólarinnar sem baðaði og nærði jurtina í sólargeislum, þú ert einnig að borða afurð jurtar sem jörð, vatn og vindur nærðu. Býflugan sest á blóm jurtarinnar og sýgur blómasafann úr því, hún geymir vökvann í maganum. Býflugan flýgur síðan heim í búið þar sem hún losar sig við blómasafann í sérstök hólf í búinu, þar sem flugurnar umbreyta blómasafanum í hinn þykka og bragðgóða vökva sem er hunang.  Hunangið nota flugurnar til að fæða sig og sína yfir sumar-og vetrartímann. En flugurnar þurfa hunangið mest yfir vetrartímann því þær leggjast ekki í dvala heldur halda þær til í búinu þar sem þær halda hita á hvor annarri og nærast yfir veturinn á hunanginu. Flugurnar safna einnig svokölluðum frjókornum sem eru mjög mikilvægur próteingjafi fyrir flugurnar, þessum frjókornum hlaða þær aftan á afturfæturnar þar sem er pláss sem kallast körfur til að geyma frjókornin í. Frjókornin eru í alls konar litum t.d. hvít, ljós gul, skær gul, ljósgræn, appelsínugul og dökk að lit. Býflugur eru mjög sérstök og mikilvæg skordýr. Án þeirra væri heimurinn fátækari af mat en um 80% þeirra matvæla sem við höfum á borðum í dag varð til vegna þess að býfluga frjóvgaði einhverja jurt í náttúrunni.

HVENÆR VORU BÝFLUGNABÚ FYRST FLUTT TIL ÍSLANDS?

Býflugnabú voru fyrst flutt inn til Íslands árið 1936 en það var ekki fyrr en í kringum árið 2000 sem ræktunin fór almennilega af stað og síðan þá hefur fjölgað jafnt og þétt í hópi býræktenda á Íslandi.Til þess að gerast býræktandi og hafa rétt á að kaupa býflugnabú þá þarf að taka námskeið hjá Býflugnafélagi Íslands.  Í dag eru um 80 býræktendur á Íslandi og þeim fer fjölgandi. Ísland ásamt Grænlandi og Álandseyjum eru einu staðirnir í heiminum sem eru lausir við pestir sem plaga býflugur erlendis eins og t.d. varóa maurinn. Býflugnabændur á Íslandi hafa keypt býpakka frá Álandseyjum og nú í sumar 2014 á að fara út í stórt verkefni á vegum Býflugnafélags Íslands þar sem á að flytja inn mikinn fjölda búa til þess að við getum verið sjálfum okkur næg með okkar eigin býflugur og að ekki þurfi lengur að flytja inn bú erlendis frá.

ALMENNT UM LÍF BÝFLUGNA

Býflugan heitir Apis mellifera mellifera á fræðimálinu en á íslensku er hún kölluð býfluga. Við mennirnir höfum lært að veita býflugum aðstöðu í svokölluðum býflugnabúum. Hér á landi eru notuð bú sem kallast Langstroth bú. Þetta eru kassar sem innihalda tíu ramma hver með flötum vaxplötum. Opið er á milli kassanna þannig að flugurnar geta farið á milli þeirra allra. Rammanna byggja þær upp með vaxi sem þær framleiða neðst og aftast á búknum, býflugur eru eina skordýrið sem getur búið til hýbýli úr sjálfu sér. Þær taka vaxið, tyggja það og mynda hin sexhyrndu hólf sem eru heimili flugnanna. Flugurnar nýta hólfin fyrir geymslu á hunangi, frjókornum og drottningin verpir í þessi hólf.

Í búinu býr ein drottning sem verpir um 1500 eggjum á dag, nokkur þúsund ófrjóar þernur sem sjá um allt starf innan og utan búsins og  nokkur hundruð druntar sem eru karldýrin. Einungis drottningin og þernurnar geta stungið en drunturinn er broddlaus. Það tekur 16 daga fyrir drottningu að þroskast, 21 dag fyrir þernu og 24 daga fyrir drunt að þroskast. Öll býflugnaegg fá svokallað drottningarhunang að borða fyrstu þrjá daganna en eftir það fá þau venjulegt hunang. Einungis þau egg sem eiga að verða að drottningum fá drottningarhunang í þá 16 daga sem tekur að búa til drottningu. Býflugur stinga mjög sjaldan en þær stinga ef þeim finnst sér ógnað á einhvern hátt. Drottningin er lang stærst og getur orðið allt að sjö ára gömul, þernurnar lifa í fjórar til sex vikur og eins er með druntana. Innan búsins þarf að sjá um marga hluti t.d. að næra og þrífa drottninguna og það gerir hirð af nokkrum þernum sem umkringja drottninguna allan sólarhringinn. Þegar þerna skríður úr hýðinu þá á hún mörg hlutverk fyrir höndum, hún byrjar á því að þrífa búið ásamt því að fæða lirfurnar og byggja upp ramma, nokkrar fara í það að þjónusta drottninguna. Þegar þernurnar eldast þá fara þær í að verja búið fyrir utan að komandi ógnum sem er að hleypa ekki hverjum sem er inn og í enda starfsævinnar fara þernurnar í það verkefni að fljúga út úr búinu og finna blómasafa.

Ef flugur finna virkilega góðan stað með miklu fæði þá fljúga þær inn í búið og dansa sérstakan býflugnadans í búinu sem inniheldur upplýsingar um það hve langt er til staðarins og hvernig sé hægt að rata þangað eftir sólinni. Þetta er stór merkilegur dans sem stundum er hægt að verða vitni að þegar kíkt er í búið. Hlutverk druntsins er að frjóvga ófrjóa drottningu en þess fyrir utan er hlutverk hans sagt ekkert þar sem hann flækist um inni í búinu og fyrir utan það. Hins vegar hefur verið sagt að söngur hans sé lífs nauðsynlegur fyrir lifrurnar sem eru að þroskast í búinu. Aðal flugan er drottningin, hún verpir eggjum og stjórnar búinu en það gerir hún með sérstökum hormónum sem kallst pheromone. Ef drottningin deyr og engin önnur er til að taka við í búinu þá deyr búið.

AÐ KÍKJA Í BÚIÐ

Þegar býflugnabóndi er að kíkja í búið þá klæðist hann hvítum galla  því hvítur er sagður ógna flugunum sem minnst, hann er einnig með hanska og í stígvélum. Síðan tekur hann með sér svokallaðann ósara sem er tæki sem hægt er að nota til að búa til reyk. Reykurinn róar flugurnar og lætur þær halda að það sé komin skógareldur þannig að þær skipta sér sem minnst af býflugnabóndanum sem er að athuga hvort það sé nóg pláss fyrir flugurnar, hvort drottningin sé að verpa og hvort það sé nægt fæði fyrir flugurnar. Síðan er hver rammi skoðaður og staðan tekin á búinu. Býflugur koma sífellt á óvart og oft er ýmislegt í gangi í búinu sem við skiljum ekkert í, þá er best að loka búinu og hugsa málið í staðinn fyrir það að grípa fram í fyrir flugunum, því þær vita alltaf betur en við mennirnir.

Ef það þarf að stækka það þá er bætt við einum kassa ef búið er ekki stækkað þegar þess er þörf þá geta flugurnar  ákveðið að sverma. Þá búa þernurnar til drottningar og helmingur þernanna  yfirgefur búið ásamt gömlu drottningunni. Þær skilja vel við gamla búið, sem inniheldur helming þernanna, drunta, fullt af ungum flugum að klekjast út, nægt fæði og drottningu sem er að fara að klekjast út. Svermurinn sem flaug í burtu með gömlu drottninguna getur stundum fundið sér annan stað, eða að býflugnabóndinn getur náð honum og komið honum fyrir í öðru auðu búi. Sú drottning sem klekkst fyrst út í gamla búinu fer um búið og drepur hinar drottningarnar, því það getur einungis ein drottning verið í búinu. Nú þarf þessi drottning að makast. Hún flýgur út úr búinu aðeins einu sinni til þess og druntarnir á eftir henni, hún makast við nokkra þeirra og flýgur svo aftur inn í búið. Það er skamm góður vermir fyrir druntinn að makast við drottninguna því hann deyr um leið og því verki er lokið.

STARFSEMI BÚSINS YFIR SUMARIÐ

Um sumarið starfa býflugnar við það að fylla búið af hunangi og koma upp nýjum kynslóðum af býflugum. Þær taka aldrei of mikið frá hverri jurt,  þær skaða ekki náttúruna heldur vinna þær með henni og eru sífellt að störfum, þær vinna allar saman að heill samfélagsins. Þegar haustar að þá taka þernurnar upp á því að drepa druntana því það er hægt að lifa af án þeirra yfir veturinn. Þeir myndu aðeins taka frá þeim fæðu og ógna því að búið myndi lifa af veturinn. Um vorið getur drottningin búið til nýja drunta. Býflugnabóndinn tekur síðan hunang frá flugunum í lok ágúst og þeim er gefið sykurvatn til að þær geti byggt upp þann forða sem þær hafa misst. Við tökum aldrei allt hunangið frá okkar flugum því við vitum að í því er meiri næring heldur en í sykurvatnshunangi. Íslenska hunangið er sérstaklega bragðgott og hunangið okkar sem kemur frá Brennholti í Mosfellsdal hefur t.d. mikið bragð af beitilyngi, blóðbergi, hvönn, fífil og mjaðjurt.

ÓGNIR SEM STEÐJA AÐ BÝFLUGUM

Það eru ýmsar ógnir sem steðja að býflugum í dag en þeirra stærsta ógn er skordýraeitur. Ég hef beðið fólk um að eitra alls ekki hjá sér garðanna þar sem það er ein mesta vitleysa sem hægt er að fara út í. Það raskar jafnvæginu og hefur áhrif á svo miklu fleira en þetta eina skordýr sem er verið að eitra fyrir. Erlendis hafa býflugnabú dáið í þúsunda tali sérstaklega í Bandaríkjunum en engin ein skýring hefur verið staðfest á dauða flugnanna. Margt er tekið til eins og skordýraeitur, mikil og sterk áburðargjöf, erfðabreyttar plöntur og einræktun þar sem flugurnar komast bara í eina jurt sem líklega er einnig erfðabreytt.

AFURÐIR FRÁ BÝFLUGUM

Set hér fram þær afurðir sem koma frá býflugum sem menn nýta á mismunandi máta en athugið listinn er ekki tæmandi:

Hunang: til neyslu, í krem og salva, og til lækninga

Drottningarhunang: notað sem fæðubótarbætiefni og til lækninga

Frjókorn: notuð sem fæðubótarefni og einnig til lækninga

Bývax: kertaframleiðslu og smyrsl

BÝFLUGNABÓNDI SÍÐAN 2012

Ég er búin að vera býflugnabóndi hér á landi síðan sumarið 2012 en hef haft býflugur á heilanum í mörg ár. Þegar ég var yngri var ég aldrei hrifin af hunangi og ég hafði ekki hugmynd um hvað það væri, fyrir mér var það eitthvað grjóthart efni í plastdósum í Kaupfélaginu heima á Blönduósi sem bragðaðist sem versti sykur. En þegar ég flutti út til Kanada árið 2005 þá opnaðist fyrir mér hunangsheimurinn því þar var hægt að velja um óteljandi bragðgóðar gerðir af hunangi. Sumarið 2008 heimsótti ég býflugnabónda í Riverton í Manitoba sem heitir Halli Jonasson og hann sýndi mér inn í eitt af búunum sínum. Á mínútunni sem ég leit á flugurnar þar sem þær iðuðu á rammanum þá varð ég heltekin af þeim, ekkert annað komst að en að skilja þær, lesa um þær og eignast einhvern tíma býflugnabú. Það er sagt einhvers staðar að þú veljir ekki að verða býflugnabóndi það séu flugurnar sem velji þig til að vera umsjónarmaður þeirra. Hvort það átti sér stað þarna úti í Manitoba eða ekki þá eignuðustum við bændurnir í Brennholti, Mosfellsdal tvö býflugnabú vorið 2012 og þá byrjaði býflugna ævintýrið mikla sem er en í gangi.

Njótið sumarsins gott fólk og þakkið býflugum fyrir þegar þið borðið sólina á teskeiðinni ykkar.

Til að lesa nánar um býflugur, skoðið síðuna www.byflugur.is

Höfundur greinar: Björk Bjarnadóttir. Umhverfis-þjóðfræðingur, býflugna-hænsna og grænmetisbóndi.