Hátíðir skipa stóran sess í lífi skólans og gegna þýðingarmiklu hlutverki í þroska hvers nemenda. Þær endurspegla þá sálarstemmningu  sem bærist innra með hverri manneskju í hrynjanda ársins. Sköpuð er ákveðin stemmning í kringum hátíðirnar þar sem áhersla er lögð á samveru og dregnar eru fram myndir sem barnið getur fundið samhljóm með.  Þannig geta hátíðirnar haft djúpstæðan tilgang og styrkt tengsl barnsins við eigin veru en jafnframt að það upplifi sig sem hlut af heildinni.

Hver hátíð á sér aðdraganda, nemendur fyllast eftirvæntingu og tilhlökkun, sem nær sínum hápunkti á sjálfum hátíðisdeginum.

Fyrir utan sjálfar hátíðirnar eru haldnar ýmsar aðrar uppákomur sem einnig  hafa það að markmiði að styrkja félagstengsl skólabarna sín á milli, og tengsl skóla og heimilis þannig að tilvera nemandans verði ein heild.

Haustönn

Skólasetning

Þegar skólinn er settur að hausti safnast nemendur, aðstandendur og starfsfólk saman. Kennarar taka á móti nemendum sínum og bjóða þá velkomna.   Elstu nemendur skólans færa 1. bekkingum lítinn blómvönd við upphaf skólagöngu þeirra. Blómvöndurinn samanstendur af villtum plöntum sem eru tákn fyrir þá hæfileika og dyggðir sem eiga eftir að þroskast með nemendunum á þeirri vegferð sem skólagangan er. Þessi samkoma fer að öllu jöfnu fram utandyra. Síðan fylgja nemendur kennara sínum inn í skólastofu á meðan foreldrar og annað starfsfólk skólans safnast saman í sal skólans og fara yfir hagnýt atriði í upphafi skólaárs.

Að lokum hittast allir úti á velli, í eldri merkingu þess orðs, til þess að gróðursetja trjáplöntur.

Mikjálshátíð – Drekaleikur

Dagur heilags Mikjáls erkiengils er 29. september. Um það leiti er farið í Drekaleik í Lækjarbotnum og haldin hátíð sem er hvort tveggja í senn uppskeruhátíð og hátíð heilags Mikjáls sem leiðir okkur í gegnum þær þrengingar og hættur sem verða á vegi okkar og hjálpar okkur að temja drekann í okkur.

Drekaleiknum er ætlað að búa okkur undir veturinn, þjappa okkur saman og styrkja okkur í trúnni á hið góða í okkur sjálfum. Leikurinn fer fram í Drekadal í skugga Drekaskógar en þetta svæði er í nágrenni skólans. Leikurinn varir í heila viku og allir nemendur og kennarar taka þátt. Í leiknum verður til þorp í Drekadal þar sem þorpsbúar sinna ýmsum verkefnum svo sem að baka brauð, elda mat, lita ullarband, tálga og gæta elds og bús. Í Drekaskógi eru drekarnir ógurlegu og þangað fara hugrakkir riddarar í leit að frægð og frama. En drekarnir verða ekki sigraðir fyrr en drekagullið finnst og þorpsbúum tekst að umkringja þá með söng.

Á síðasta degi leiksins er foreldrum boðið að koma og taka þátt í að ráða niðurlögum drekanna.  Þá er einnig uppskeruhátíð skólans úr skólagarðinum og við njótum þess að borða súpu og drekabrauð saman.

Meira um Mikjálshátíðina.

Þemadagar

Á þemadögum haustsins eru haldnir handverksdagar þar sem unnir eru fram munir fyrir jólabasarinn. Allir nemendur skólans koma saman og er skipt í hópa þvert á bekkina,  enda markmiðið meðal annars að styrkja félagsleg tengsl á milli aldurshópa. Verkefnin sem nemendur takast á við eru fjölbreytt og endurspegla áherslur skólans í efnis- og verkefnavali.  Ýmsir fallegir munir verða til á þessum dögum, og er vel vandað til verka.

Jólabasar

Basarinn er árviss viðburður í nóvember.   Þar sem í boði eru margir fallegir hlutir bæði í umhverfi og stemningu sem hverjum og einum er hollt að upplifa , m.a. brúðuleikhús, barnakaffihús, veiðitjörn, eldbakaðar pizzur, jurtaapótek, tónlist, töfrar og ekki síst munir, þar sem sést að hugur mætir sköpunarkrafti handanna.  Börn,  foreldrar,  starfsfólk skólans og leikskólans taka sameiginlega þátt í undirbúningi basarsins, vinna fram hugmyndir og búa til muni.  Basarinn er allt í senn fjáröflun, kynning á því starfi sem fram fer í Lækjarbotnum og síðast en ekki síst skemmtilegur vettvangur fyrir börn og fullorðna að mætast við vinnu.   Í sameiningu er sköpuð  skemmtileg hátíð sem börnin og hinir fullorðnu bíða eftir með mikilli eftirvæntingu.

Luktarhátíð – Marteinsmessa

Luktarhátíð er haldin á Marteinsmessu  og er tileinkuð heilögum Marteini. Boðskapur hátíðarinnar er gjafmildi. Á þessum tíma sendir sólin okkur sína síðustu geisla áður en hún hverfur okkur að baki  Selfjalls. Nemendur útbúa luktir til að taka á móti geislum sólarinnar, geislum sem umbreytast í innra ljós.  Þannig veitum við birtu og yl í tilveru hvers annars með ljóskerum og söng og bekkirnir gefa hvor öðrum smákökur eða annað góðgæti.  Á þessum degi erum við vön að heimsækja vini okkar í Ásgarði (verndaður vinnustaður), þar sem þeir eru gladdir með söng og einhverju góðgæti.

Aðventugarður

Sá siður hefur skapast í Waldorfskólum um allan heim að innleiða aðventuna á táknrænan hátt.   Aðventugarðurinn er alltaf haldinn 1. sunnudag í aðventu og er hátíð þar sem nemendur, foreldrar og kennarar koma saman. Á hátíðinni er stór spírall mótaður úr grenigreinum á gólfi salarins, með stóru kertaljósi í miðju.  Engill gefur hverju barni kerti sem hefur verið komið fyrir í epli.   Athöfnin felst í því að börnin ganga eitt af öðru með kertið inn að stóra kertaljósinu í miðjum aðventugarðinum þar sem þau tendra ljós sitt og koma því svo fyrir í spíralnum þegar gengið er út úr honum.  Þannig lýsist aðventugarðurinn smátt og smátt upp og við erum minnt á ljósið sem við þurfum að bera innra með okkur í skammdeginu og einnig að margt smátt gerir eitt stórt. Eplin eru tákn fyrir jörðina og þann ávöxt sem hún ber.  Að ganga inn að miðju táknar að koma til sjálfs sín en að ganga út úr spíralnum er að koma til annarra.  Hljóðfæraleikur ljær athöfninni hátíðlegan blæ.

Jólaskemmtun

Á jólaskemmtun fá foreldrar að upplifa eitt og annað sem nemendur hafa fram að færa af því sem sprottið hefur fram í skóladagsins önn.  Þar eru sýnd leikrit, söngur og aðrar uppákomur.

Leynivinaleikur

Í desember förum við í leynivinaleik í skólanum.  Leikurinn er hefðbundinn leynivinaleikur þar sem allir, bæði nemendur og starfsfólk,  draga miða með nafni á og eiga að vera leynivinur viðkomandi á meðan á leiknum stendur.  Vináttuna er hægt að sýna með ýmsu móti, með góðvild og hjálpsemi, senda teikningu eða kveðju til viðkomandi eða lauma einhverju góðgæti eins og mandarínu eða piparköku (ekki sælgæti) til leynivinarins.  Leiknum lýkur á síðasta skóladegi fyrir jól og þá uppljóstrum við hver er leynivinur hvers með því að tendra kerti hvert hjá öðru. Leynivinir sitja svo saman við langborð og borða kærkomna jólasteik.

 Jólaball

Haustönninni lýkur með hefðbundnu jólaballi.  Börn, foreldrar og starfsfólk dansa kringum jólatréð og oftar en ekki kemur jólasveinn í heimsókn.  Í lok skemmtunarinnar þá setjumst við niður og njótum veitinga saman sem hver fjölskylda hefur komið með.

 

Vorönn

Þrettándinn

Þegar síðasti jólasveinninn yfirgefur mannabyggðir þá er haldin álfabrenna í skólanum og til að fagna nýju ári er flugeldum skotið á loft.

Sólarkaffi

Þegar daginn tekur að lengja og það sést loks aftur til sólar í Lækjarbotnum, höldum við hátíð og fögnum endurkomu sólarinnar.  Sólarkaffið er í fyrstu vikunni í febrúar eða þann dag sem fyrstu sólargeislarnir skína inn til okkar í Rauða Húsið. Þá er fluttur af nemendum hinn sígildi leikþáttur um veðmál sólarinnar og norðanvindsins og eftir að hafa stigið sólartrommu-dansinn gæðum við okkur á vöfflum og sólarsafa.

Meira um Sólartrommuna.

Þorrablót

Við blótum að sjálfsögðu á  Þorra í skólanum. Þá borða allir bekkir saman í salnum og skiptast á að fara með rímur, ljóð eða söngva undir borðum. Dagurinn er að öðru leyti hefðbundinn skóladagur.

Öskudagur / Grímuball

Á öskudag er óhefðbundinn skóladagur sem endar á grímuballi.  Nemendur mæta í skólann, grímuklædd í takt við þema dagsins.  Bekkjunum er skipt í tvo hópa, yngri bekki og eldri bekki og farið er í ýmsa leiki með tilheyrandi gamni.   Að sjálfsögðu mætir starfsfólkið einnig í grímubúningum og við það tækifæri er settur upp ,,óviðjafnanlegur“ leikþáttur í flutningi valinkunnra leikara úr hópi starfsfólks.  Þema dagsins og sýningin haldast í hendur og vikuna áður er búið að æfa sönglög sem tengjast þemanu. Sú hefð hefur haldist að börnin saumi öskupoka og hengi hvort á annað.  Í lok dagsins er svo boðið upp á að slá köttinn úr tunnunni.

 Páskaskemmtun – eggjaleit – páskamáltíð

Foreldrum og aðstandendum er boðið á skólaskemmtun fyrir páska.  Þar eru nemendur  með ýmsar uppákomur sem sprottnar eru úr skólastarfinu, oftar en ekki í beinu samhengi við námsefni vetrarins.

Á síðasta degi fyrir páska, ef vel er að gáð, sést til páskahérans og þá fara allir nemendur að leita að eggjum sem hann hefur skilið eftir og enda þau á páskaborðinu þar sem við sameinumst við langborð og neytum páskamáltíðarinnar.

Þemadagar

Á vordögum eru haldnir þemadagar á ný en að þessu sinni tengjast þeir útiveru og hreyfingu. Markmiðið er að nemendur komi saman og eiga skemmtilegan dag sem felur í sér líkamlegt erfiði í gegnum leik og gleði.  Nemendur elsta bekkjarins ásamt kennara sjá um að skipuleggja dagana.

Opið hús

Að vori standa skólinn, leikskólinn og foreldrafélagið sameiginlega að Opnu Húsi í Lækjarbotnum. Opið hús er hugsað sem kynning á starfseminni fyrir foreldra væntanlegra skólabarna og aðra áhugasama. Opið hús er einnig hugsað sem tækifæri fyrir foreldra til að sjá og upplifa það starf sem fram fer í öðrum bekkjum og  síðast en ekki síst til að kynna skólastarfið fyrir ættingjum og vinum.

Skólaslit

Foreldrar, starfsfólk og nemendur koma saman á sal eftir vetrarstarfið.  Hver nemandi fær afhent ársbréf og fína rós frá kennurum sínum.  Á þessum tímamótum útskrifast nemendur úr 10. bekk og halda á vit annarra ævintýra.

Vinnuhelgar

Tvisvar á ári (að hausti og vori) eru skipulagðar vinnuhelgar, þar sem foreldrar, nemendur og starfsfólk skólans mæta til að sinna viðhaldi og uppbyggingu á skólanum og svæðinu umhverfis hann.   Þetta er ógleymanleg samvera nemenda, foreldra og kennara með miklu fjöri, góðum mat og stórhuga framkvæmdum.