Leiksvæðið í Lækjarbotnum er að mestu mótað af náttúrunni en frá stofnun skólans hefur verið plantað í skjólbelti og nú eru skógarlundar og tré sem jafnvel er hægt að klifra í.  Við skipulag á svæðinu er horft í hvernig við getum stutt við þroska barnsins, því námið í skólanum er heilandi ferli og við reynum að mæta þeim tólf skynfærum manneskjunnar sem Steiner talar um. Við leitumst við að styrkja jafnvægi, tilfinningu fyrir öryggi, því að þora, hoppa og skoppa, sveifla sér með höndum, skríða, klifra, heyrnar- og sjónupplifanir.  Við byggjum upp svæðið þannig að það sé leikvangur fyrir alla aldurshópa frá leikskólabörnum upp í unglinga í 10. bekk.

Undanfarin ár hafa unglingar bæði frá elstu bekkjum skólans og einnig frá öðrum Norðurlöndum unnið saman að ýmsum verkefnum.  Sérstaklega hefur verið unnið úti, bæði við viðhald og einnig við smíðar eða mótun á jarðveginum, með því að grafa fyrir ýmsu og einnig hafa þeir unnið listrænt með náttúruna á svæðinu.  Foreldrar taka einnig þátt í að móta leiksvæðið og vinna, bæði á vorin og haustin á vinnudögum því að útisvæðið er svæði með sameiginlegum markmiðum og hugmyndum fyrir framtíðina.