Eldurinn er einnig frumkraftur sem manneskjur, á öllum aldri, lokkast að.  Mikilvægt er að þekkja hann, til að geta umgengist hann af virðingu og varkárni. Í miðju leiksvæðinu er eldstæði og einnig á fleiri stöðum.  Hlóðir eru notaðar til að elda og baka mat, brauð og pönnukökur og einnig til að hita potta til að jurtalita garn og fleira.  Ákveðnar hátíðir kalla einnig á eld svo sem Álfabrennan á þrettándanum og hátíðin með unglingunum á Jónsmessu, auk eldanna sem kveiktir eru í Drekaleik. Sólartáknið er í leikskólagarðinum sem lífgjafi jarðarinnar.  Eldurinn er inni í leirkofanum, tálgunarkofanum, í eldofninum, í bakaríinu og auðvitað í eldsmiðjunni og hægt er að sjá með meðvituðu litavali í blómum á svæðinu að eldurinn er í þeim.

Í febrúarbyrjun höldum við Sólarkaffið til að halda uppá að sólin sé farin að birtast yfir Kistu og geislar sólar skína loks aftur á skólahúsin.  Nú fer að vora og við dönsum Sólartrommuna í heila viku.