Jörðin er allt í kring og hægt að róta í sandi og mold, steinum og möl.  Í garðyrkjunni kynnumst við jörðinni vel og lærum að skilja hvernig plönturnar teygja sig niður og hvaða starfsemi á sér stað. Við berum á skít og jarðveg sem kemur frá moltugerðinni.  Allir vita hvar safnhaugurinn er og einnig að allir matarafgangar úr skólanum enda þar og verða að mold.  Í safnhaugana fara hvatar sem samkvæmt mannspekinni hafa áhrif með plánetunum, gera jörðinni auðveldara fyrir og auka frjósemi jarðvegs.  Steinar og gras eru allt hluti af leikvellinum og með því að raða því saman, svo sem í Völundarhúsinu sem endalaust er gaman að ganga, verða þeir stór hluti af leiknum. Fjöllin og hæðirnar allt um kring eru hluti af leiksvæðinu og vettvangur kennslu.