Þar sem listir og handverk skipa stóran sess í skólastarfinu þá er stefna okkar að koma fram með uppákomum sem gefa innsýn í starfið og styrkja nemendur og skapa tengsl við menningarlífið allt í kringum okkur. Við erum reglulega með hátíðir þar sem við sýnum listir okkar fyrir hvoru öðru og myndir frá börnunum hanga uppi í sal og gefa árstíðabundna stemningu. Við sækjum í menningarviðburði hvort sem er til höfuðborgarsvæðisins eða út á land. Við viljum að nemendur umgangist hvor aðra af virðingu og meti verðleika hvors annars, við gefum þeim eldri tækifæri til að sýna þeim yngri umhyggju og virðingu og þau yngri upplifa dugnað og færni þeirra eldri sem skapar lotningu og eftirvæntingu. Ýmsir þættir skólastarfsins miða að því að skapa félagsvitund s.s. morgunsöngurinn, hátíðir, jólabasar, leikritin og sirkusinn.  Á haustdögum er kennt úti í heila viku leikur, svokallaður drekaleikur sem vinnur að vitundarvakningu allra um baráttu góðs og ills, hugrekki og fórnfýsi, samvinnu, hjálpsemi og iðjusemi.