Dagurinn byrjar í skólarútunni frá höfuðborginni kl.8.00 og er í skólann er komið þá fara allir á sal í samsöng þar sem sungið er á hinum ýmsu tungumálum, Við stöndum einnig saman í þögn til að söngurinn fái að setjast innra með okkur. Að því loknu fara allir í sínar stofur þar sem kennslan hefst með morgunhring og síðan morguntíma þar sem kennt er í lotum.  Klukkan 10.30 er morgunhressing, te og brauð og síðan útivera, mislöng eftir aldri en allir njóta náttúrunnar og af þeim gæðum sem fylgja hverri árstíð.  Fram að hádegismat koma hinar ýmsu kennslustundir.  Heitur matur í hádegi í salnum og eftir hádegi er kennsla í handverki eða listum.  Að loknum skóladegi flykkjast allir í rútu sem ekur í bæinn.

Vikuhrynjandi er mismunandi eftir aldri nemenda. Yngri bekkirnir, upp að 6. bekk fara á hverjum mánudegi í nestisferð í u.þ.b. 2 tíma, hvort sem er upp á hæstu tinda eða styttra og þá jafnvel í skjól á milli trjánna til að drekka sitt nesti. Yngri bekkirnir baka einnig brauð í eldofninum einu sinni í viku til að hafa með súpunni á fimmtudögum og á föstudögum skiptast allir bekkirnir á að baka flatbökur í eldofninum fyrir sinn bekk. Bekkirnir taka virkan þátt í öllum störfum eldamennsku og baka reglulega bakkelsi hvort sem er inni eða úti á hlóðum.

Á haustin og vorin eru fastar heimsóknir í skólagarðana til að undirbúa jarðveginn, sá og planta og í lokin er uppskeran tekin.  Allt notað annað hvort í matinn eða þurrkað sem krydd, te eða í smyrsl.  Í Lækjarbotnum er löng hefð fyrir því að gróðursetja tré í fjallið í upphafi skóla.  Við tínum einnig birkifræ, sáum þeim og upp vaxa græðlingar sem síðan er hægt að gróðursetja aftur í fjallið. Söfnun jurta, svo sem beitilyngs, fjallagrasa, sortulyngs og annarra villtra jurta er fastur liður í skólastarfinu og eru jurtirnar notaðar í bakstur, te, smyrsl og til litunar á ullarbandi sem svo er notað í handavinnu. Á haustin eru réttir í Lækjarbotnarétt, þar sem bekkirnir skiptast á að bjóða upp á kaffi.  Við fáum oft ull þaðan sem við þvoum, kembum, litum og notum síðan í handavinnunni.  Í Lækjarbotnum er einnig ágætis berjaland og fara allir í fjallið til að tína og gera síðan sultu, saft og þurrka ber.