Að hefja skólagöngu er stórt skref, bæði fyrir barnið og foreldrana. Fyrsti bekkur er sveipaður fallegum ævintýrablæ og börnin eru forvitin og áhugasöm um lífið. Fyrsti bekkur er dásamleg byrjun á spennandi tíu ára ferðalagi. Þar koma þau til með að kynnast hvort öðru vel. Kennarinn er eins og stólpi sem börnin geta treyst á og hann/hún leiðir bekkinn áfram af kærleik í gegnum skólagönguna.

Skapaður er góður hrynjandi í deginum, vikunni og árinu sem hjálp fyrir barnið svo að sköpunarkraftar þess fái að blómstra hvort heldur sem er í leik eða starfi.

Á þessum aldri lifir barnið sterkt í heimi ævintýranna. Sagan/ævintýrið er miðpunktur kennslunnar. Kennarinn segir börnunum söguna og virkjar ímyndunarafl og sköpunarhæfni þeirra. Sagan inniber fróðleik um lífið og þegar barnið hlustar, skapar það myndir innra með sér af því sem það heyrir. Ævintýrið, þulur og vísur veita innblástur sem endurspeglast í skapandi athöfnum barnanna t.d. í leikjum þeirra eða teikningum. Einnig er oft unnið áfram með söguna í formi brúðuleikrits eða gert leikrit með börnunum.

Söngur skipar stóran sess og tengist náttúrunni og árstíðunum.  Börnin spila saman á pentatóniskar flautur og lýrur. Í hrynlistinni er lögð áhersla á eftirhermun með leikrænni tjáningu, á ljóðum og ævintýraleikjum.

Leikurinn skipar stóran sess í skóladegi barnanna enda undirstaða þess að barnið komist í betri snertingu við umhverfi sitt og sjálft sig.  Börnin fást við ýmis verkleg störf í dagsins önn svo sem málun, bakstur, tálgun, tónlist, hrynlist, eða störf sem eru árstíðarbundin eins og t.d garðyrkja og berjatínsla. Sú vinna þjónar tilgangi og er hluti af stærri heild því þannig endurspeglar það innra líf barnsins, þar sem 6 ára barnið upplifir sig sem hluta af heildinni.