Nemendurnir þroskast og námið byggist sífellt meira á staðreyndum. Samhengi hlutanna er mikilvægt, svo og raungreinar, sem eru rauði þráðurinn í náminu þetta árið.

Hugurinn vaknar og nemendur öðlast færni í að skilja og kryfja til mergjar tilgátur og hugmyndafræði.  Nýr skilningur vaknar á tilkomu og formi heimsmyndar samtímans, auk þess sem þekking á alþjóðasamfélagi og heiminum í heild styrkist.

Teikning, málun, skúlptúrvinna, handverk, hrynlist og tónlist eiga enn sitt pláss í stundaskránni, en nú bætist við nýtt fag; listasaga og fagurfræði, þ.e. skynbragð og skilningur á fegurð og hughrifum listarinnar.

Í tónlistinni vinna nemendur m.a. að eigin útfærslu og framsetningu í hópum.  Skyggnst er inn í heim tónskálda og uppbygging og eðli tónlistarinnar er skoðuð nánar. Í hrynlistinni er unnið með krefjandi verk sem nemendur taka þátt í að velja sjálf.

Frelsisbarátta almúgans, einveldisstefna konungsríkja og framgangur þjóðernishyggju eru efniviður sögukennslunnar.  Franska byltingin skipar þar stóran sess, hvernig þörfin fyrir breytingar knýr fólk til aðgerða. Burt með hið gamla, inn með það nýja. Frelsi, jafnrétti, bræðra- og systralag eru mikilvæg orð.

Tímabil upplýsingar og rómantíkur eru skoðuð; Voltaire, Rousseau, Goethe, Schiller, Kellgren og Sagnelius.  Þetta eru spennandi tímabil og byltingin er ekki bara pólitísk heldur einnig heimspekileg. Straumar og stefnur sem við þekkjum í nútímanum hafa einnig verið við lýði fyrr á öldum.

Í efnafræði er fjallað um lífræn ferli og helsta umfjöllunarefni eðlisfræðinnar eru andstæðir pólar, s.s. hiti og kuldi. Í tungumálakennslunni er aðal áhersla lögð á munnlega þáttinn og samtalið.  Í samfélagsfræði er fjallað um samfélag nútímans, grunnstoðir og stofnanir þess.

Nemendur kynnast tölvunni betur. Hvað er tölva, til hvers má nýta hana, hverjir eru kostir hennar og gallar? Hugtök eins og hugbúnaður og vélbúnaður eru skoðuð, nemendur kynnast innviði tölvunnar og virkni hennar. Samhliða þessu fá þau þjálfun í að nýta sér tölvuna á hagkvæman hátt.