Sagan eða ævintýrið heldur áfram að vera miðpunktur kennslunnar. Hún opnar barninu dyr inn í heim skriftarinnar.  Úr myndinni af konungssyninum birtist stafurinn K.

Börnin byrja að búa til sínar eigin skóla- og vinnubækur, sem þau halda áfram að gera út alla skólagönguna. Einnig byrja þau að læra erlend tungumál. Tungumálakennsla fer fyrst í stað fram í gegnum vísur og söngva en barnið þróar þannig með sér eins konar rytmíska þekkingu á tungumálum.

Í reikningi er alltaf gengið út frá heildinni.  Við finnum þættina í heildinni, skiptum henni niður og byggjum upp aftur. Reikniaðferðirnar fjórar eru kenndar á myndrænan hátt, í gegnum sögur, hrynjandi og formteikningu.

Hreyfingin, leikurinn og kennslan eru órjúfanleg heild. Formteikning, málun og hrynlist eru einnig mikilvægur þáttur í kennslunni um bókstafi og skrift.  Að auki málar barnið mikið, bæði með vatnslitum og krít. Í handmennt  læra nemendurnir að prjóna en þar er lagður grunnur að rökhugsun. Í tálgun er unnið áfram út frá ævintýri og börnin öðlast meiri færni í mismunandi formum.

Í stundatöflu sjö ára barnsins er einnig tónlist, hljóðfæraleikur og söngur.  Færni á flautu og lýru er æfð áfram, hreyfing og leikur fléttast inn í sameiginlega tónlistarsköpun.

Unnið er með félagsfærni í hrynlistinni til að koma jafnvægi á mismunandi þroskaþætti.