Fram að þessu hefur barnið litið á sig og veröldina sem eitt. Nú verður kúvending á því og barnið finnur fyrir aukinni einstaklingsvitund og fær nýjan áhuga á umhverfi sínu og bregst við því á meðvitaðri hátt en áður. Það er áskorun fyrir kennarann að halda því trausti sem barnið hefur hingað til borið til hans/hennar, því hugsun þess er að þroskast: ég er ég og þú ert þú – en hver ert þú eiginlega?

Með því að fjalla um aldagamlar starfsgreinar s.s. landbúnað, garðyrkju, sjómennsku, brauðgerð, skósmíðar og trésmíðar, opnar kennarinn barninu dyr inn í hinn stóra umheim. Hvernig bakar maður brauð? Hvernig býr maður til ost? Hvernig byggir maður hús? Hvernig ræktar maður matjurtir? Hvaða plöntur og dýr hefur jörðin að geyma? Hvað þarf manneskja að kunna til að lifa af? Sveitin og þéttbýlið verður barninu raunveruleg fyrirmynd og barnið lærir að skilja að við erum öll jafn mikilvæg og að við þurfum á hvort öðru að halda.

Með því að heyra sögur úr Gamla Testamentinu byrjar barnið að skynja muninn á góðu og illu, hlýðni og óhlýðni. Siðferðileg hugtök og persónurnar taka á sig form í vinnubókinni.

Í tónlistarnáminu eru fleiri hljóðfæri kynnt til leiks og áhugi á nótnalestri vakinn.

Með því að notast við form sem tjá hið eðlislæga í hverju orði lærir barnið ekki eingöngu málfræðina á vitsmunanlegan hátt heldur einnig með þáttöku eigin tilfinninga og vilja í vissum hreyfingum í hrynlistinni.  Einnig er til að mynda unnið með myndræna byggingu tónbila og tóna sem efla heyrnina.

Formteikningin styrkir formkrafta barnsins.

Í tungumálakennslunni eru textar teknir til umfjöllunar og byrjað er að vinna með stafsetningu og málfræði. Nemandinn lærir að skrifa heilar setningar og formar hugsanir sínar í ritað mál.

Í reikningskennslu taka hagnýtar spurningar við: Hvað kosta mjólkurpotturinn og eggjabakkinn samtals? Mælieiningar koma til sögunnar: Hversu breiður er glugginn? Hversu löng er kennslustofan? Hversu þung er flautan?  En ég?

Gömlu störfin fléttast inn í handmennt. Barnið kemst í snertingu við ullina,  það lærir að meðhöndla hana, kemba og spinna. Á þessum vetri byrja börnin einnig að hekla. Í tálgun eru unnir nytjahlutir svo sem bréfa- og smurhnífur.