Fyrstu fjögur skólaárin hefur kennarinn persónugert jörðina, sólina, plönturnar og dýrin. Í fimmta bekk verður breyting á og kennarinn lýsir hlutunum eins og þeir raunverulega eru. Barnið skynjar hlutina í kringum sig sterkar og af enn meiri forvitni.

Norræna Goðafræðin, þar sem bardagar og brölt skipa stóran sess ásamt sáttum og samningum, er undirstaða kennslunnar. Askur Yggdrasill, Miðgarðsormurinn og Snorra Edda eru kynnt. Guðir og gyðjur eru einstaklingar með mannlega eiginleika; Þór er sterkur og hugrakkur, Óðinn er vitur, Loki er slyngur og illkvittinn.

Þema námsins er að heildin er deilanleg. Jafnvel tungumálunum má deila í hluta og hugtökin nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru kynnt fyrir börnunum. Hver og einn orðflokkur hefur sín séreinkenni og sitt hlutverk í þeirri heild sem tungumálið er. Tungumálakennslan verður flóknari og börnin byrja að skrifa og lesa á erlendum málum.

Dýraríkið teygir sig frá himni og alla leið niður á sjávarbotninn. Barnið lærir um mismunandi eiginleika dýranna og opnar augun fyrir þeirri staðreynd að dýrin eru oft á tíðum meiri hæfileikum búin en manneskjan, sem er ekki sérlega sérhæfð á neinu sviði. Þetta er upphafið að dýrafræði.

Í hrynlistinni er lagður grunnur að flóknari formum sem byggjast á rúmfræði Lagt er upp úr því að börnin upplifi sig sem sjálfstæðan hluta hops sem vinnur saman að því að mynda eina heild. Börnin læra að syngja í röddum og útfæra samspil á margvíslegan hátt.

Í handmennt læra börnin krosssaum. Kross leggst við kross og smám saman mynda krossarnir fullbúna heild. Unnið er með samspil forms og lita.  Í tálgun er gerð skeið og tálguð dýr að eigin vali. Málunin tekur á sig formfasta mynd og kennarinn velur þema út frá árstíðunum.

Bekkurinn setur upp sína fyrstu stóru leiksýningu, út frá Norrænni Goðafræði.