Nemendurnir halda áfram að læra um lífsskilyrði á jörðinni okkar og nú tekur grasafræðin við af dýrafræðinni.  Mismunandi skilyrði gefa af sér ólíkar plöntutegundir, fjalllendið hefur ekki sömu flóru og eyðimörkin. Þau komast að því að umhverfið er fjölbreyttara en þau hafa haldið hingað til.

Á þessu ári læra nemendurnir einnig um fornar menningarhefðir: Indland, Persíu, Mesópótamíu, Egyptaland og Grikkland. Sögurnar fjalla um persónur frá ólíkum menningarheimum og viðburði tengda þeim. Þau uppgötva hina forngrísku fegurð og egypska myndmálið gefur nýjan innblástur fyrir vinnubókina.

Formteikningin teygir sig í átt að rúmfræðinni og í reikningi glíma þau nú við brot og tugabrot.  Í móðurmálskennslu eru allir orðflokkar kynntir og þau byrja að læra um eiginleika þeirra, hætti og föll.

Náttúrufræðin og vistfræðin tengjast framsögninni. Börnin lesa upphátt og halda lítil erindi um dýr og landslag. Þannig þjálfa þau færni í að koma óttalaust og af öryggi fram, fyrir framan hóp af fólki.

Í tónlistarnáminu kynnast börnin dúr og moll tónstigunum og fjölbreytnin eykst í raddsetningum og samspili. Í handverkstímum bætist smíðavinna við textílvinnuna.

Nú komast börnin á þann aldur þar sem líkaminn þroskast hratt, það teygist á útlimum og búk, vöðvarnir spennast og barnið upplifir sig oft sem hálfóviðráðanlega beinagrind.   Í hrynlist er unnið með koparstafi með tilliti til þessara þátta og er þannig ýtt undir samspil beinagrindar og vöðvakerfisins.

Norræn landafræði er nýtt fag í stundatöflu barnanna.  Þau teikna og mála landakort og öðlast þannig sterka tilfinningu og djúpan skilning á landslagi, löndum og þjóðum heims.

Árið 1921 sagði Rudolf Steiner í fyrirlestri: Manneskja sem hefur fengið góða landafræðikennslu, ber í brjósti meiri kærleika til samborgara sinna heldur en manneskja sem ekki hefur fengið tækifæri til að lifa sig inn í lífsskilyrði samferðafólks okkar á jörðinni. Í landafræðinni hefst því undirbúningur siðfræðinnar, því barn sem hefur fengið góða landafræðikennslu öðlast umburðarlyndi og lærir að taka tillit til annarra. Landafræðin er gífurlega mikilvægt fag og að hunsa mikilvægi hennar vinnur í raun gegn náungakærleika.