Kynþroskinn nálgast óðfluga. Ég-vitundin styrkist og nemandinn er í auknum mæli upptekinn af sjálfum sér og ákvarðanarétti sínum.  Nú er rétti tíminn til að kynna rómverska menningu og upphaf réttarkerfisins. Rómaveldi er vagga einstaklingsréttar og þetta fag kveikir áhuga og samkennd.

Í landafræði er sjóndeildarhringurinn víkkaður enn meira og heimsálfan Evrópa er kynnt til sögunnar, gjarnan með áherslu á viðskipti og staðreyndir. Nemendurnir eru skipulagsglaðir og njóta þess að setja upp töflur og útskýringarmyndir eða gera lista yfir borgarnöfn og kennileiti. Hæfileiki til að safna að sér upplýsingum eykst hratt á þessum aldri og skilningur á líffræði- og efnafræðilegum fyrirbærum eykst.

Nýtt fag er kynnt til sögunnar: Eðlisfræðin. Áhersla er lögð á skynfærin; hljóð og sjón. Í sjónfræði er lögð áhersla á ljósbrot og litróf. Hvernig getur ljósgeisli brotnað og birst sem mismunandi litir? Hvernig stendur á því að hljóðbylgja hagar sér ekki eins í andrúmslofti og í vatni? Hvers vegna sést eldingin nokkrum sekúndum áður en þruman dynur á? Spurningarnar eru óteljandi og mikilvægt er að skilja samhengi hlutanna.

Prósentureikningur hefst á þessu skólaári. Ávallt er gengið út frá þeirri staðreynd að margir hlutar mynda eina heild. Sem dæmi má nefna að litir í málun tengjast eðlisfræðinni. Strendingar, vinklar og ljósgeislar eðlisfræðinnar líkjast formum rúmfræðinnar og formteikningin rennur saman við rúmfræði.

Í beinu framhaldi af dýra- og plöntufræði er nú röðin komin að jarðfræðinni.

Í handverkstímum er ennþá nostrað við fegurðina. Nú læra börnin að búa til ávala og kúfta hluti í smíðavinnunni án þess þó að tæknilegar kröfur séu gerðar til hönnunarinnar. Einnig er unnið með hreyfanleg leikföng.  Í tónlistinni er m.a. fengist við speglun og stjórnun í ólíkum tegundum tónlistar.

Í hrynlistinni er lögð mikil áhersla á form í rými, sem byggjast á rúmfræði.  Þessar æfingar eru byggðar upp sem einstaklingsform innan hópsins. Einbeiting hugar, líkamsbeiting, sjálfstraust og hópefli eru styrkt.