Nemandinn er ekki lengur barn, hugsanir og tilfinningar eru undir miklum áhrifum frá kynþroskaskeiðinu sem nú er á byrjunarstigi. Mikilvægt er að beina athyglinni út í hinn stóra heim og leggja áherslu á þekkingarleit.

Efnafræði er helsta nýjungin á þessu skólaári og með því að gera tilraunir með varma og eld uppgötvar nemandinn stórkostlegar breytingar á mismunandi efnum. Hvað gerist ef eldur fær ekki súrefni, hvernig bregst eldurinn við ef súrefnisflæðið er aukið og hvaða hlutverki gegnir súrefni fyrir manneskjuna?

Í sögutímum er farið í Endurreisnartímabilið. Listamenn eins og Rafael, Michelangelo og Leonardo da Vinci eru kynntir til sögunnar. Ný heimsmynd skapast í huga nemandans og hann/hún uppgötvar landafræði heimsins í stóra samhenginu; Columbus, Vasco de Gama, Magellan. Á nokkrum áratugum sigldi maðurinn um jörðina þvera og endilanga og kannaði áður óþekkt höf og heimsálfur. Siglingafræði evrópskra landkönnuða naut góðs af uppgötvunum Araba í stjörnufræði. Og stjörnufræðin gerir okku kleift að sjá út fyrir lengstu landamæri. Við skiljum sólarupprásina, tunglhringinn og árstíðirnar. Nú beinum við sjónum nemandans frá jörðinni út í hinn víða geim.

Nemendur fræðast um eigin líkama, magnað samspil líffæra og fullkomna uppbyggingu beinagrindarinnar.

Í eðlisfræði eru aflfræðin og jafnvægislögmálin tekin fyrir. Hér helst eðlisfræðin í hendur við hrynlist og leikfimi.  Tónlistarnámið er dýpkað enn fremur, dægurlög eru útfærð á ýmsan máta og meðvituð hlustun er æfð. Nemendur upplifa á þessu æviskeiði miklar breytingar.  Hrynjandi hrynlistarstundanna sjálfra gefur góðan ytri ramma og um leið verður innri þátttaka efld.

Hringrás lífsins er mikilvægur þáttur. Með því að stunda hagkvæma garðyrkjuvinnu, s.s. að sá, vökva og uppskera, fylgjast nemendurnir með þessari hringrás auk þess að læra um rotnun og moltugerð.

Í handverkskennslu eru gerðir stærri hlutir svo sem kastali fyrir leikskólabörnin. Í málmsmíði er unnið með kopar og gerðar mismunandi skálar.