Unglingar eru viðkvæmir fyrir áreiti úr umhverfinu og hafa ekki öðlast nægilega lífsreynslu til að hafa þroskaða dómgreind á við fullorðna og geta því auðveldlega fyllst óöryggi.  Með því að vinna markvisst með viljastyrkinn styrkjum við persónuleika þeirra og sjálfsöryggi.

Í sögutímum er fjallað um iðnbyltingu, verslun og viðskipti. Þannig fræðast þau um sköpunarkraft manneskjunnar og þeim umbreytingum sem honum fylgja, umbreytingar sem geta leitt bæði til góðs og ills. Volt og vött, gufuvélin, Edison og ljósaperan, Ford og færibandið. Þessar vísindauppgötvanir voru gerðar á sínum tíma – hvernig getum við nýtt okkur þær á sem bestan hátt?

Í móðurmálskennslu er fjallað um ljóðið, skáldskapinn og frásagnarlistina. Í tungumálatímum  notum við bókmenntir til að ná fram dýpri skilningi á öðrum menningarsamfélögum og lærum þannig að skilja betur tilfinningar fólks frá ólíkum löndum, gleði þeirra og sorgir.

Í efnafræði er áhersla lögð á næringarfræði og matvælaframleiðslu og hvernig efni eins og sykur, prótín, fita og sterkja eru lífsnauðsynleg fyrir manneskjuna. Sjómælingar, loftþrýstingur, rafsegulfræði,  símskeytið,  rafmagnsmótorinn og fleira er meðal efnis í eðlisfræði. Kennarinn notast við hagnýtar tilraunir og fyrirmæli við kennsluna. Í stærðfræði er komið að því að læra um kvaðratrótina, jöfnur, vinkla og horn.

Nemendur fræðast um beinagrindina og það að sjálf manneskjan hefur vélræna og efnislega eiginleika. Þau læra um uppbyggingu beinagrindarinnar og hvernig manneskjan hreyfir hana með hjálp vöðva.

Það tilheyrir þessum aldurshópi að vilja upplifa til fulls allt það sem hefur verið lært áður og tengja hina ýmsu þætti saman.  Þessi þörf og hæfni barnanna er nýtt í vinnu í hrynlistinni á erfiðari verkum, með ljóðum og tónlist.

Í tónlistinni er fengist við hin ólíku blæbrigði.  Framsetning á formaðri tónlist annars vegar og spuna hins vegar færir nemendur nær eðli og einkennum tónlistarinnar.

Í myndmennt fá nemendur að spreyta sig í dúkskurði. Litirnir eru kvaddir í bili og eingöngu er unnið með svart/hvítt. Ljós og skuggi spila veigamikið hlutverk, þetta er tími kynþroskans, tími andstæðna.