Að lifa í tengslum við hrynjandi árstíðanna og upplifa hin sterku náttúruöfl styrkir lífskraft og sjálfsvitund og skapar virðingu fyrir náttúrunni og því sem hún gefur af sér.  Eiginleg íþróttakennsla er ekki til staðar en börn og unglingar eru í leikjum, bæði skipulögðum sem hluta af námskrá og tilfallandi, upp um hæðir og hóla, og á veturna eru brekkurnar nýttar daglega til sleða, skíða og brettaferða, enda hluti af skólalóðinni. Við höfum skipulagt sumarleika í þemaviku þar sem allir bekkir taka þátt í hinum ýmsu íþróttum og einnig höfum við haft sirkuskennslu og haldin eru opin sirkusnámskeið á sumrin.  Sundkennsla fer fram í sundlaugum nágrannabæja.

Segja má að í Lækjarbotnum hafi verið útikennsla frá upphafi enda tengjumst við náttúrunni á margan hátt, fög eins og átthagafræði og náttúrufræði eiga greiðan aðgang þar sem skólalóðin verður vettvangurinn.  Með nútímalifnaðarháttum ávinnst manninum mikil þægindi en hann missir einnig að einhverju leyti tengsl sín við náttúruna en einn af mikilvægum þáttum skólans í Lækjarbotnum eru einmitt þessi tengsl.   Eftir að hafa farið í nestisferðir í hverri viku um næsta nágrenni lærist að lesa í landslagið, sjá sérkenni þess og átta sig á fjarlægðum.  Með aldrinum eru farnar lengri ferðir sem þarf að skipuleggja fyrirfram. Bekkirnir byrja einnig að safna fyrir utanlandsferðum og tengjast bekkjum í öðrum Waldorfskólum, oftast á öðrum Norðurlöndum, heimsækja þá og er þá oftast farið í göngur og ferðir þar sem náttúra landsins er könnuð og ekki síst menning staðarins. Við tökum einnig á móti erlendum skólabekkjum bæði á vorin og haustin, og förum með þá í ferðalög um landið og kynnum þeim okkar menningu.