Markmið og áherslur skólans

Tilvera Waldorfskólans í Lækjarbotnum byggir á vali foreldra. Foreldrar sem velja að setja börnin sín í Waldorfskólann Lækjarbotnum byggja val sitt fyrst og fremst á orðstír skólans, þ.e.a.s. reynslu annarra foreldra.  Við teljum það mikilvægt að foreldrar taki upplýsta ákvörðun um skólagöngu barna sinna og leggjum því áherslu á ítarlegt inntökuferli og náið samstarf milli heimilis og skóla.

Markmið Waldorfskólans er fyrst og síðast það að styrkja hvern einstakling til þess að vera eða komast í góð tengsl við sjálfan sig til þess að verða heilsteypt og sjálfstæð manneskja sem er í stakk búin að taka ábyrgð á eigin lífi sem fullorðinn einstaklingur.

Til þess að ná þessu markmiði leggur Waldorfuppeldisfræðin áherslu á að hlúa jafnt að öllum hliðum mannlegs þroska sem við köllum vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og líkamlegan/vilja-þroska. Þetta birtist m.a. í uppbyggingu kennslustunda í bóklegum fögum og í áherslum skólans á listrænar og verklegar námsgreinar.

Uppbygging skólans og ábyrgð kennarans

Í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum er starfsmannaráð vettvangur ákvarðanatöku innan skólans. Þar koma kennarar og aðrir starfsmenn skólans saman og ráða ráðum sínum varðandi innra starf skólans, fjármál, ráðningar, inntöku nýrra nemenda og annað sem hefur með rekstur og stjórn skólans að gera. Starfsmannaráðsfundir eru haldnir alla virka fimmtudaga skólaársins og eru að hluta til samráðs-vettvangur Waldorfskólans Lækjarbotnum og Waldorfleikskólans Yls. Starfsfólk skólans og leikskólans skipar ábyrgðasvið og nefndir sem bera ábyrgð á hinum mismunandi þáttum skólastarfsins og reksturs stofnananna.

Kennarar og aðrir starfsmenn Waldorfskólans deila í raun þeirri ábyrgð sem skólastjóri og yfirmenn skóladeilda hafa með höndum í hefðbundnum grunnskólum. Auk þess að bera sameiginlega ábyrgð á rekstri og innra starfi skólans ber hver kennari og starfsmaður ábyrgð á sínu starfssviði í samræmi við starfslýsingar og ráðningasamninga skólans.

Í Waldorfskólum er litið svo á að starf kennarans sé af listrænum toga, að undirbúa kennslustund og bera námsefnið á borð fyrir nemendur er list og krefst sem slík ákveðins rýmis eða frelsis. Kennsluhættir Waldorfskólans byggja á því að kennarinn mæti nemendum sínum í lifandi og skapandi ferli. Útgangspunktur kennarans er nemandinn sjálfur, þarfir hans út frá því hvar hann er staddur í sínum þroska og hvert hann stefnir með fyrrgreind markmið að leiðarljósi um að nemandinn verði heilsteypt og sjálfstæð fullorðin manneskja.

Kennarinn er því fyrst og síðast ábyrgur gjörða sinna gagnvart nemandanum sjálfum, enda er námskrá Waldorfskólanna byggð á þörfum einstaklingsins á hverju aldursskeiði. Kennarinn þarf að sjálfsögðu að geta gert grein fyrir áætlunum sínum og kennsluháttum gagnvart starfsmannaráði og skólayfirvöldum.

Forskrift og skráning

Grunnurinn að Waldorfuppeldisfræðinni sem kennsluaðferð var settur fram í röð fyrirlestra eða námskeiði sem Rudolf Steiner hélt fyrir verðandi kennara Waldorfskólans í Stuttgart haustið 1919. Námskeiðið samanstóð af þremur samliggjandi fyrirlestraröðum og samræðum sem gefnar hafa verið út og bera titlana; „Almenn mannþekking sem grunnur uppeldisfræðinnar“, „Listin að uppfræða, námskeið í uppbyggingu kennslufræðinnar“ og „Listin að uppfræða,samtöl og fyrirlestrar um kennsluáætlun“. Titlarnir gefa ákveðna vísbendingu um nálgunina þar sem þekking á mannlegu eðli liggur til grundvallar listinni að uppfræða.

Fyrstu drög að eiginlegri námskrá fyrir Waldorfskóla voru skrifuð af kennurum fyrsta Waldorfskólans. Annars vegar var það Karl Stockmeyer sem byggði námskrá sína á tilvitnunum í fyrirlestra og rit Steiners en til eru um 300 skráðir fyrirlestrar hans um uppeldis og kennslufræði. Hins vegar var það Dr. Caroline von Heydebrand sem samdi lítið rit eða kver þar sem hún gerði grein fyrir námsefni og kennsluháttum hennar og samkennara hennar við Waldorfskólann í Stuttgart.

Hvorki Stockmeyer né Heydebrand litu á skrif sín sem uppskrift að Waldorfkennslu, heldur sem leiðbeiningar og innblástur fyrir kennara.

Waldorfhreyfingin hefur framanaf farið mjög varlega í að gefa út opinbera námskrá fyrir Waldorfskóla af ótta við að læsa um of eða drepa niður það sem á að vera lifandi og skapandi frumkvæði og framsetning kennarans. Það var ekki fyrr en 1992 að Norsku Waldorfskólasamtökin gáfu út sína fyrstu opinberu námskrá; „En læreplan for Steinerskolen 1.-12. Klasse“. (Þessi útgáfa var lögð á borð Björns Bjarnasonar þáverandi menntamálaráðherra sem námskrá Waldorfskólans í Lækjarbotnum þegar skólinn fékk formlegt starfsleyfi árið 1995.)

Kröfur yfirvalda um aukið eftirlit og skrásetningu hafa aukist mjög hin síðari ár. Waldorfskólasamtökin í Noregi gáfu út ýtarlegri kennsluleiðbeiningar árið 2004 og árið 2007 gáfu samtökin út drög að kennsluáætlun og markmiðum kennslunnar. Árið 2013 var gefin út endurskoðuð kennsluáætlun með kennslumarkmiðum fyrir 4., 7. og 10. Bekk.

Þetta eru, meðal annarra,  þau rit sem Waldorfskólinn í Lækjarbotnum leggur til grundvallar í kennslu og námskrárgerð skólans.

Gæðaeftirlit og sjálfsmat

Waldorfskólasamtökin í Noregi hafa unnið fram gæðaáætlun; „Kvalitetsplan, minste felles miltiplum störste felles mål“. Í Waldorfskólanum Lækjarbotnum höfum við unnið með þessa áætlun en verið er að þýða hana og staðfæra.

Fyrstu drög að sjálfsmatsáætlun skólans voru gerð haustið 2010 en við gerð sjálfsmatsáætlunar skólans voru þeir þættir sem sjálfsmatið skyldi beinast að flokkaðir í:

  1. Kennarinn
  2. Bekkurinn
  3. Starfsemin í Lækjarbotnum (leikskólinn og grunnskólinn)
  4. Starfsmannaráð
  5. Foreldrar
  6. Yfirvöld
  7. Samfélagið

Í öllum þessum þáttum skyldi nemandinn vera í brennidepli.

Sjálfsmat

Starfsmannafundir eru haldnir alla virka fimmtudaga skólaársins. Þar fer fram formlegt mat á skólastarfinu. Foreldrafundir, foreldrasamtöl, hátíðir, skemmtanir, þemadagar og aðrar uppákomur, starfsdagar, námskeið, fyrirlestrar m.m. er tekið fyrir á starfsmannafundi eftir að atburður hefur átt sér stað. Lagt er mat á undirbúning og framkvæmd, athugasemdir og ákvarðanir eru skráðar í fundargerð.

Þverfaglegir fundir um einstaka bekkjardeildir eru haldnir reglulega þar sem fjallað er um bekkinn sem félagslega heild og einstaka nemendur. Tilgangur þverfaglegu fundanna er að skapa sem mesta heild milli bóklegra, verklegra og listrænna námsgreina og jafnframt að skapa  sameiginlega vitund um nemendur innan hverrar bekkjardeildar.

Áætlun um innra mat

Á árunum 2011-2013 var metið sérstaklega hvernig staðið er að námsmati við skólann og gerð áætlum um námsmat og skráningu þess.

Veturinn 2015-2016 verður gerð könnun um afdrif fyrrverandi nemenda skólans. Framkvæmd og útfærsla könnunarinnar er í höndum nefndar um innra mat sem skipuð er þremur kennurum skólans.

2016-2017 munum við meta samstarf heimilis og skóla.

2017-2018 munum við meta stjórnskipan skólans.