„Skipting veru mannsins í líkama, sál og anda og lífræn samvirkni milli þessara þátta er í samræmi við skiptingu manneskjunar í meltingarkerfi, öndunar- og blóðrásarkerfi og tauga- og skynfærakerfi“. (Rudolf Hauschka)

Steiner talar um fjóra líkama mannsins og virkni þeirra í hinum fjórum frumeðlum í líkamanum og hann tengir þá við hin fjögur frumeðli í nátttúrunni.

Efnislíkaminn er sá fyrsti og við eigum hann sammerkt með öllu lifandi og jafnvel því sem ekki lifir í náttúrunni; steinar, kristallar, bergið. Allt fast efni steinaríkisins. Efnislíkaminn kemur skýrast fram í manneskjunni í beinagrindinni. Mótandi öfl hafa formað hann sem mynd af einstaklingseðlinu. Hann tengist jörðinni.

Hann er það sem er mótandi fyrir barnið fyrstu 7 árin.

Lífslíkaminn (Eterlíkaminn) er það sem við eigum sameiginlegt með öllu lifandi, það er plöntum og dýrum og hann gerir þeim mögulegt að lifa. Lífslíkaminn vinnur gegn áhrifum efnislíkamans með því að leysa upp það sem vill þjappast saman, það sem er þungt verður létt, það sem leitast við að stirðna er borið til streymandi hreyfingar og það sem vill deyja er endurlífgað. Það eru efnafræðileg öfl, hljómsins, máttur tónsins sem fullkomnar efnisbygginguna, ummyndun efnanna og undur upplausnar efnanna í alkemíu alheimsins. Það eru leyndardómar meltingarinnar og efnaskiptanna sem heyra til sviði lífslíkamans. Hægt er að segja að efnislíkaminn sé sýnileg mynd af lífslíkamanum. Hann tengist Vatninu sem er lífgefandi.

Hann er það sem er mótandi frá 7 ára til 14 ára aldurs.

Sálarlíkaminn (Astrallíkaminn) höfum við sammerkt með dýrunum. Sálin býr í frumeðli hreyfingarinnar. Öndunin og blóðrásin bera hana í gegnum líkamann. Það er frumeðli loftsins sem er jafnvel í blóðinu beri sálaraflanna, súrefni og kolsýra, er streyma til og frá hjartanu í háttbundin hrynjanda. Það sem er hreyfing á sviði líkamans, það er tilfinning á sviði sálarinnar, ljós. Tilfinningar og langanir tilheyra þessum líkama. Sálarlíkaminn gerir manneskjunni og dýrunum kleift að upplifa og bregðast við ekki aðeins ytri heiminum heldur einnig hinum innri heimi.

Hann er sá sem er mótandi frá 14 ára til 21 árs.

Égið. Manneskjan er sú eina sem hefur égið og það aðskilur okkur frá dýrunum.

Hið andlega ég býr í varmanum. Varmi blóðsins er hin líkamlega undirstaða andans. Úr varma blóðsins stíga vilji og gjörðir okkar fram. Þau móta okkur sem einstaklinga inn í tilveruna. Þar sem égið frelsar sig frá líkamanum, eins og í taugunum, þá er það þess í stað varmi hrifningarinnar, sem égið getur búið í.

Hann er það sem er mótandi eftir 21. aldursárið.