„Þeir kraftar sem hafa verið að verki í líkamlegri mótun og stjórnast af eftirhermu umbreytast nú og birtast í sálarlífinu, hið sálræna losnar úr viðjum erfða. Ytri staðfesting á þessu er að erfðar mjólkurtennur þurfa að víkja fyrir eigin tönnum.

 Allt abstrakt-fræðilegt er ennþá deyðandi fyrir barnið. Með hlustun og innlifun vaxa skapandi hæfileikar barnsins. Lífleg frásögn er undirstaða kennslunnar. Ef hlýlegt starfsamt tilfinningalíf er ekki fyrir hendi getum við ekki náð þroska sem sannar manneskjur og þróað skynjun fyrir ábyrgð og siðferði.

Frásögnin er útgangspunktur fyrir eigin sköpun barnsins. Haft er að leiðarljósi; veröldin er dásamleg. Öryggi barnsins er byggt upp með þetta að leiðarljósi og þess vegna er stefnt að því að sami bekkjarkennari fylgi bekknum fyrstu sjö til átta árin“. (Námskrá Ellen Key Waldorfskóla)

Meginhluta kennslunnar er miðlað til barnsins myndrænt eða í gegnum leik.

Tilfinning og upplifun barnsins getur því óhindrað mætt kennsluefninu á eigin forsendum, útfrá aldri og þroska barnsins, og er ekki íþyngt af vitsmunalegri hugsun og tilfinningu hinna fullorðnu.

Leikurinn er í yngri bekkjunum heimur barnsins og verður þekkingin að fara í gegnum leikinn. Barnið verður þá þátttakandi í þekkingunni. Þekkingin verður upplifun barnsins og þau taka hana til sín á dýpri hátt en ella. Hin áunna þekking kemur innanfrá, frá þeim sjálfum, í stað þess að koma utanfrá.

Í leiknum á barnið mestan möguleika á að vera það sjálft og getur gefið sig án umhugsunar, takmarka og ótta og gengið til móts við hvað sem er, hvort sem það lítur að líkamlegu eða hugsana- og tilfinningalífi þess.

Í frjálsum leik mæta börnin hvort öðru og finna sinn eigin og sameiginlegan veg í daglegu lífi og leysa árekstra sem koma upp og æfa félagslega færni.

Eitt af því mikilvægasta í uppeldi barna í dag er að vernda barndómskraftana, leyfa þeim að vera börn, því með metnaðarfullum útskýringum á öllu mögulegu sem barnið hefur ekki þroska gagnvart, þorna lífskraftar barnanna upp.

Engar siðferðispredikanir hrífa til árangurs, heldur það sem fyrir er haft. Barnið nemur þá siðferðishegðun sem það sér í þeim tilfinningum, handahreyfingum, hugsunum og gjörðum hjá þeim manneskjum sem eru umhverfis það.

Í dag er lögð mikil áhersla á í samfélaginu að börnin velji og að þau taki þátt í lífi hinna fullorðnu með því að taka ákvarðanir sem eru þeim ofvaxnar. Flest börn bera takmarkaða virðingu fyrir fullorðnum og draga orð þeirra í efa. Eitt er heilbrigður vilji, sem hvetur barnið áfram á þeirri braut sem það er á en annað er hömlulaus vilji sem hangir í lausu lofti ímyndanna og langana, sem hafa ekkert með raunverulegar þarfir og vilja barnsins að gera.

Barnið þarfnast kennara sem svarar væntingum þess og mætir því sem fulltrúi hins góða, fallega og sanna í lífinu, þá vex tilfinningalíf  barnsins smámsaman og gerir barnið næmt fyrir eigin upplifunum á því sem því þykir þægilegt eða óþægilegt. Það lærir að styrkja siðferðisvitund sína og að elska hið góða. Barnið þarf að geta borið virðingu fyrir kennara sínum en ekki þvingast undir vald hans og þarf því ekki alltaf að vera sammála en dregur ekki vilja og fyrirætlanir kennarans í efa. Því er innilegt samband milli barnshjartans og hjarta kennarans eitt hið þýðingarmesta í kennslufræðinni.

„Kennarinn verður að vera meðvitaður um að hvaðeina sem hann býður barninu verður að vera þess eðlis að barnið geti samsinnt því þegar það vaknar til sjálfstæðrar meðvitundar. Barnið verður að geta elskað kennara sinn, ekki aðeins á meðan á skólagöngu þess stendur, heldur einnig síðar þegar dómgreind þess hefur náð fullum þroska. Barnið verður að finna alla tíð að ást þess og traust til kennarans var réttlætanlegt. Ef barnið öðlast ekki þessa lífsvarandi trú og kærleika til kennarans þá hefur kennaranum aðeins tekist hlutverk sitt til hálfs“. (Steiner, Ilkley. 1923)

Kennaranum er nánast ætlað að vekja sál barnsins. Þekkingarefnið skal ávallt þjóna þeim tilgangi að vekja sálarlífið og þess vegna er unnið útfrá hinu listræna og haft að leiðarljósi að „Veröldin er dásamleg“.