Miðstig

5.-7. bekkur

Samkennsla

Samkennsla er á öllum skólastigum Waldorfskólans. Umsjónarkennarar fylgja bekkjum sínum frá upphafi skólagöngu nemenda að útskrift þeirra í 10. bekk. Á öllum skólastigum koma inn fagkennarar en á miðstigi stíga þeir enn frekar inn í kennslu helstu fögin sem íslensku og stærðfræði.

5. bekkur

Á yngsta stigi hefur kennarinn persónugert jörðina, sólina, plönturnar og dýrin. Í fimmta bekk er áhersla á náttúrufræði og norræna goðafræði. Nemendur hafa öðlast auka hæfni í að skynja og greina umhverfi sitt og krefjast haldbærar skýringar á náttúrulegum fyrirbærum. Hinn raunverulegi heimur stígur sterkari inn í alla kennslu.

Nemendur læra um mismunandi eiginleika dýranna og kennarinn opnar huga nemenda fyrir eigin skilningarvitum; sjón, hlustun, lykt og snertiskyn. Athyglinni er beint að hvernig dýr hafa þróað öflugri skilningarvit til að skynja umhverfi sitt og afla fæðu en manneskjan.

Meginstef námsins er að heildin er deilanleg. Jafnvel tungumálunum má deila í hluta og hugtökin nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru innleidd. Hver og einn orðflokkur hefur sín séreinkenni og sitt hlutverk í þeirri heild sem tungumálið er. Tungumálakennslan verður flóknari og nemendur byrja að skrifa og lesa á erlendum tungumálum.

Í tónlist læra nemendur að syngja í röddum og fá tækifæri til útfærslu hljóðfæraleiks á margvíslegan hátt. Í handmennt læra börnin krosssaum. Kross leggst við kross og smám saman mynda krossarnir fullbúna heild. Unnið er með samspil forms og lita. Í tálgun er gerð skeið og dýr að eigin vali. Málunin tekur á sig formfasta mynd og kennarinn velur þema út frá árstíðunum. Bekkurinn setur upp sína fyrstu stóru leiksýningu, en inntak hennar er norræna goðafræðin.

6. bekkur

Nemendurnir læra um lífsskilyrði á jörðinni og grasafræðin tekur við af dýrafræðinni. Mismunandi skilyrði gefa af sér ólíkar plöntutegundir, hálendi hefur ekki sömu flóru og láglendi. Nemendur komast að því að umhverfið er fjölbreyttara en þau hafa haldið hingað til og að jörðin mótast af innri og ytri öflum.

Á þessu ári læra nemendurnir einnig um vöggu siðmenningar og fornar menningarhefðir: Mesópótamíu, Egyptaland, Persíu, Indland og Grikkland. Í mannkynssögu er fjallað um áhrifamiklar persónur ólíkra menningarheima og viðburði þeim tengdum. Nemendur uppgötva hina forngrísku fegurð og egypskar híeróglýfur gefa innblástur fyrir listræna sköpun í vinnubók.

Formteikningin teygir sig í átt að rúmfræðinni og í reikningi er fengist við brot og tugabrot. Í móðurmálskennslu eru allir orðflokkar kynntir og þau byrja að læra um eiginleika þeirra, hætti og föll. Íslenskan er samþætt við öll helstu fögin þar sem réttritun og skrif eigin texta á sér stað.

Í náttúrufræði og vistfræði er framsögn tengd við námið með þeim hætti að nemendur skrifa eigin texta út frá ítarefni kennara og æfa upplestur og halda erindi um viðfangsefni kennslunnar. Norræn landafræði er innleidd og fjölbreyttir sköpunarþættir eru nýttir til að nemendur öðlist sterka tilfinningu og skilning á landslagi sem og innri og ytri mótandi öfl jarðarinnar.

Í tónlistarnáminu kynnast börnin dúr og moll tónstigunum og fjölbreytnin eykst í raddbeytingu og samspili. Í handverkstímum bætist smíðavinna við textílvinnuna. Í hrynlist er unnið með koparstafi með tilliti til samspils beinagrindar og vöðvakerfisins.

7. bekkur

Rómaveldi, rómversk menning og upphaf réttarkerfi vestrænna þjóða er meginviðfangsefni 7. bekkjar. Sjálfsvitund nemenda styrkist og er nemandinn nú í auknum mæli upptekinn af sjálfum sér og ákvarðanarétti sínum sem hægt er að sjá endurspeglast í réttarfarsumbótum Rómaveldis.

Í landafræði er sjóndeildarhringurinn víkkaður enn meira og heimsálfan Evrópa er kynnt til sögunnar, með áherslu á viðskipti og flutningaleiðir afurða. Skipulagshæfileikar nemenda á þessu þroskastigi eru nýttir til að setja upp töflur, gröf og skýringarmyndir. Hæfileiki til að safna að sér upplýsingum eykst hratt og skilningur á líffræði- og efnafræðilegum fyrirbærum eykst.

Í eðlisfræði er tekið fyrir ljós og hljóðfræði og nemendur öðlast þekkingu á  sjón- og hljóðheiminum á eigin skinni og í gegnum fræðilegar athuganir. Samhengi, orsök og afleiðing eru hér útskýrð með fræðilegum hætti og með raunvísindalegum athugunum. Prósentureikningur í þessum árgangi. Ávallt er gengið út frá þeirri staðreynd að margir hlutar mynda eina heild. Sem dæmi má nefna að litir í málun tengjast eðlisfræðinni. Strendingar, vinklar og ljósgeislar eðlisfræðinnar líkjast formum rúmfræðinnar og formteikningin rennur saman við rúmfræði.

Í beinu framhaldi af dýra- og plöntufræði er nú röðin komin að jarðfræði. Kennarinn veitir nemendum fræðilega innsýn í gegnum kennslu innandyra en farið er í vettvangsferðir og einstakt nærumhverfi skólans er nýtt til dýpkunar á jarðfræðilegum hugtökum.

Í handverkstímum lögð áhersla á fagurfræði.   Nemendur vinna að því að skapa ávala, hvelfda og íhvelfda hluti í smíðavinnunni. Tæknimennt er kennd í smiði með því að nemendur hanna og smíða hreyfanleg leikföng.

Í hrynlistinni er lögð mikil áhersla á form í rými, sem byggjast á rúmfræði. Þessar æfingar eru byggðar upp sem einstaklingsform innan hópsins. Einbeiting hugar, líkamsbeiting, sjálfstraust og hópefli eru styrkt. Í tónlist er áhersla á laglínur, hljóm, hrynjanda og hraða og form tónlistar.