Tilfinning

Aldurskeið 7-14 ára

Á þessu aldursskeiði eru það samkennd, litbrigði og þroski tilfinningalífsins sem er í forgrunni. Hið listræna gegnumsýrir alla kennslu og taktföst uppsetning kennslustunda styður við námið. Á yngri stigum tekur kennari námsefnið og endursegir nemendum með þeim hætti að innri myndir skapist hjá börnunum. Kenningar þarfnast ekki útskýringa heldur er lögð áhersla á að barnið upplifi hið talaða orð, blæbrigði málsins og efnivið, sem næst ekki fram í prentuðum kennslubókum eða með hjálp tækninnar. Nemendur teikna myndir í sínar eigin vinnubækur og með aldrinum bætist textaskrif við. Í 1.-4. bekk er leikurinn, hvort sem er úti eða inni, mikilvægur þáttur í námi barna.

Barnið

Meginhluta kennslunnar er miðlað til barnsins myndrænt eða í gegnum leik. Tilfinning og upplifun barnsins getur því óhindrað mætt kennsluefninu á eigin forsendum, út frá aldri og þroska barnsins sem er ekki íþyngt af vitsmunalegri hugsun og tilfinningu hinna fullorðnu. Námsefnið skal ávallt þjóna þeim tilgangi að vekja sálarlíf barnsins og þess vegna er unnið út frá hinu listræna og haft að leiðarljósi að „Veröldin er dásamleg“. Í leiknum á barnið mestan möguleika á að vera það sjálft og getur gefið sig án umhugsunar, takmarka og ótta og gengið til móts við hvað sem er, hvort sem það lítur að líkamlegu eða hugsana- og tilfinningalífi þess. Í frjálsum leik mæta börnin hvort öðru og finna sinn eigin og sameiginlegan veg í daglegu lífi og leysa árekstra sem koma upp og æfa félagslega færni.