Stefna skólans

Skólastefnan er byggð á hugmyndir og
kenningar Rudolf Steiners um þroska mannsins

Skólastefnan

Í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum byggir skólastarfið á waldorfuppeldis- og kennslufræði þar sem mikil áhersla er lögð á að stuðla að alhliða þroska nemandans.  Uppeldisfræðin hvílir á tveimur meginstoðum.  Annars vegar viðhorfum til mannsins og þeirri sýn á veru og eðli mannsins sem birtist í mannspeki Rudolf Steiner og hins vegar þeim hugmyndum sem hann setti fram um félagslega uppbyggingu samfélagsins.

Jöfn áhersla er lögð á vitsmunalegan, tilfinningalegan og líkamlegan þroska nemandans.  Með vitsmunaþroska er m.a. átt við skólun skapandi hugsunar með tilliti til almennra þekkingar og fræðilegra þátta.  Með tilfinningaþroska er m.a. átt við listrænan þroska, (fagurskyn) siðgæðis- og félagsþroska.  Með líkamlegum þroska er m.a. átt við hreyfiþroska, skólun viljans og verklega leikni.  Rík áhersla er á listræna og verklega nálgun í allri kennslu.  Reynt er að samtvinna alla þessa þætti þar sem mögulegt er og hafa kennsluna eins fjölbreytta og viðfangsefni og aðstæður bjóða upp á.  Leitast er við að ná fram lifandi áhuga nemandans á viðfangsefnunum og koma til móts við þarfir og kröfur hans sem einstaklings.

Í Waldorfskólanum Lækjarbotnum byggir kennslan á framsögn og miðlun kennarans sem hefur tileinkað sér námsefnið, unnið úr því og gert að sínu eigin.  Mikil áhersla er á jákvæð viðhorf, sjálfstæð vinnubrögð og skapandi vinnu.  Samkennsla er í 1-2. bekk, 3-4. bekk, 5-6. bekk, 7-8. bekk, og 9-10. bekk. Við skólann stunda nú 72 grunnskólanemendur nám sitt.

Í Waldorfskólanum Lækjarbotnum teljum við staðsetningu okkar afgerandi og mikilvægan þátt í því uppeldisstarfi sem fer fram.  Nemendum gefst kostur á að komast í nána snertingu við náttúruna, að upplifa náttúruöflin í „blíðu og stríðu“ og lifa með hrynjandi árstíðanna.  Náttúran og náttúruupplifanir tengjast skólastarfinu á margan hátt.  Við samtvinnum námsefnið við náttúruna hér í Lækjarbotnum,   ýmislegt í starfi skólans fer fram utandyra og má með sanni segja að hér hafi verið notuð „útikennslustofa“ frá upphafi.

Waldorfskólinn leggur mikla áherslu á félagsþroska og á það að skapa nálægð, annars vegar á milli nemenda og kennara, og hins vegar barnanna á milli, óháð aldri og þroska.  Reynslan hefur sýnt okkur að í okkar nútíma samfélagi er mikilvægt að hlúa að mannlegum samskiptum.

Við viljum að nemendur geti umgengist af virðingu og metið verðleika hvers annars.  Við gefum þeim eldri tækifæri til að sýna þeim yngri umhyggju og virðingu og þau yngri upplifa dugnað og færni þeirra eldri sem skapar lotningu og eftirvæntingu.  Við ýmis tækifæri, m.a. í tengslum við hátíðir, sköpum við vettvang þar sem bekkirnir vinna saman eða gera góðverk hver fyrir annan og ýmsir aðrir þættir skólastarfsins miða að því að efla félagsvitund.