Unglingastig

8.-10. bekkur

8. bekkur

Efnafræði er helsta nýjungin á þessu skólaári og með því að gera tilraunir með varma og eld er nemendum gefin leið til að upplifa breytingar á mismunandi efnum við efnahvörf og bruna. Nemendur gera raunvísindalegar athuganir, skilgreina ferli og draga ályktanir.

Í samfélagsfræði og mannkynssögu er farið í endurreisnartímabilið. Listamenn eins og Rafael, Michelangelo og Leonardo da Vinci eru kynntir til sögunnar. Hin nýja heimsmynd mannkyns við landafundina á 15. og 16. öld breyttist og kynnast nemendur nýrri heimsýn endurreisnarinnar í gegnum ævisögur helstu landkönnuða Evrópu; Columbus, Vasco de Gama, Hinrik sæfara og Magellan og hvernig siglingafræðiþekking Araba gerði þeim kleift að sigla um áður ókönnuð úthöf.

Nemendur fræðast um eigin líkama, magnað samspil líffæra og fullkomna uppbyggingu beinagrindarinnar í líffræði. Í eðlisfræði eru aflfræðin og jafnvægislögmálin tekin fyrir. Í stjörnufræðinni er sjónum nemanda beint frá jörðinni og út í hinn víða heim. Ljósmengun er lítil í Lækjarbotnum og hér gefst nemendum einstakt tækifæri á að skoða stjörnubjartan himininn. Í umhverfisfræði er fjallað um hringrás lífsins, vatns, andrúmslofts og jarðvegs. Með ástundun garðyrkjuvinnu á öllum skólastigum, s.s. að sá, vökva og uppskera, hafa nemendur fengið tækifæri til að fylgjast með hringrás lífsins mikilvægi rotnunar til að skapa undirstöður að nýjum jarðvegi og geta tengt það við fræðin.

Tónlistarnámið er dýpkað enn fremur, dægurlög eru útfærð á ýmsan máta og meðvituð hlustun er æfð. Nemendur upplifa á þessu æviskeiði miklar breytingar. Taktur hrynlistarstundanna sjálfra gefur góðan ytri ramma og um leið er innri þátttaka efld. Í handverkskennslu eru gerðir stærri hlutir svo sem kastali fyrir leikskólabörnin. Í málmsmíði er unnið með kopar og gerðar mismunandi skálar.

9. bekkur

Í samfélagsfræði og mannkynssögu er fjallað um iðnbyltinguna, verslun og viðskipti. Nemendur fræðast um sköpunarkraft manneskjunnar og þeim umbreytingum sem henni fylgja, umbreytingar sem geta leitt bæði til góðs og ills. Gufuvélin og vísindauppgötvanir Edisons svo sem raflýsing og upptökutækni hljóðs og mynda, áhrif Henry Ford í nýsköpun í verksmiðjuframleiðslu, færibandið. Nemendur velta fyrir sér hvaða áhrif þessar vísindauppgötvanir hafa á líf okkar í dag og hvernig við nýtum þær.

Í móðurmálskennslu er fjallað um ljóðið, skáldskapinn og frásagnarlistina. Í erlendum tungumálum eru lestur bókmennta nýttar til að ná fram dýpri skilningi á öðrum menningarsamfélögum með þeim tilgangi að nemendur læra betur að skilja tilfinningar fólks frá ólíkum löndum, gleði þeirra og sorgir.

Í efnafræði er áhersla lögð á næringarfræði og matvælaframleiðslu. Hvernig efni eins og sykur, prótín, fita og sterkja eru lífsnauðsynleg fyrir manneskjuna. Sjómælingar, loftþrýstingur, rafsegulfræði, símskeytið,  rafmagnsmótorinn og fleira er meðal viðfangsefna í eðlisfræði. Kennarinn notast við hagnýtar tilraunir og fyrirmæli við kennsluna en nemendur skrá niður athuganir, skilgreina ferli og draga ályktanir. Nemendur fræðast um beinagrindina og það að sjálf manneskjan hefur vélræna og efnislega eiginleika í líffræði. Hvernig uppbyggingu beinagrindarinnar er háttað og hvernig manneskjan hreyfir hana með hjálp vöðva.

Í stærðfræði er komið að því að læra um kvaðratrótina, jöfnur, vinkla og horn. Algebra og rúmfærði ásamt tölfærði þar sem talnamynstur eru rannsökuð, óþekktar stærðir, víxlregla, tengiregla og dreifiregla. Geómetría er einnig kennd sem sér fag en í þessum árgangi útbúa nemendur hlutbundin líkanasmíði, læra að teikna skýringarmyndir, teikna þrívíddarmyndir og vinna með þrívíddar marghyrninga, speglun, snúning og hliðrun.

Í tónlistinni er fengist við hin ólíku blæbrigði hljómsins. Framsetning á formaðri tónlist annars vegar og spuna hins vegar færir nemendur nær eðli og einkennum tónlistarinnar. Í myndmennt fá nemendur að spreyta sig í dúkskurði. Unnið er með svart og hvít þar sem ljós og skuggi spila veigamikið hlutverk.

10. bekkur

Nemendurnir þroskast og námið byggist sífellt meira á staðreyndum. Samhengi hlutanna er mikilvægt, svo og raungreinar, sem eru rauði þráðurinn í náminu þetta árið. Hugurinn vaknar og nemendur öðlast færni í að skilja og kryfja til mergjar tilgátur og hugmyndafræði. Nýr skilningur vaknar á tilkomu og formi heimsmyndar samtímans, auk þess sem þekking á alþjóðasamfélagi og heiminum í heild styrkist.

Teikning, málun, skúlptúrvinna, handverk, hrynlist og tónlist eiga enn sitt pláss í stundaskránni, en nú bætist við nýtt fag; listasaga og fagurfræði, þ.e. skynbragð og skilningur á fegurð og hughrifum listarinnar.

Í tónlistinni vinna nemendur m.a. að eigin útfærslu og framsetningu í hópum. Skyggnst er inn í heim tónskálda og uppbygging og eðli tónlistarinnar er skoðuð nánar. Í hrynlistinni er unnið með krefjandi verk sem nemendur taka þátt í að velja sjálf.

Frelsisbarátta almúgans, einveldisstefna konungsríkja og framgangur þjóðernishyggju eru efniviður samfélagsfræðinnar og mannkynssögu. Franska byltingin skipar þar stóran sess, hvernig þörfin fyrir breytingar knýr fólk til aðgerða. Burt með hið gamla, inn með það nýja. Frelsi, jafnrétti, bræðra- og systralag eru mikilvæg orð. Umfjöllun um samfélag nútímans, grunnstoðir, stofnanir þess og hvernig þær eru byggðar á stoðum sem eiga sér upphaf í fortíðinni.

Tímabil upplýsingar og rómantíkur eru skoðuð; Voltaire, Rousseau, Goethe og Schiller. Þetta eru spennandi tímabil og byltingin er ekki bara pólitísk heldur einnig heimspekileg. Straumar og stefnur í nútímanum eru tengdar við hugmyndafræði fyrr á tímum.

Í efnafræði er fjallað um lífræn ferli og helsta umfjöllunarefni eðlisfræðinnar eru andstæðir pólar, s.s. hiti og kuldi. Í tungumálakennslunni er aðal áhersla lögð á munnlega þáttinn og samtalið. Nemendur kynnast tölvunni betur. Hvað er tölva, til hvers má nýta hana, hverjir eru kostir hennar og gallar? Hugtök eins og hugbúnaður og vélbúnaður eru skoðuð, nemendur kynnast innviði tölvunnar og virkni hennar. Samhliða þessu fá þau þjálfun í að nýta sér tölvuna á hagkvæman hátt.