Yngsta stig

1.-4. bekkur

Samkennsla

Í skólanum er samkennsla tveggja bekkjarstiga. Í upphafi skólagöngu í 1. bekk er árgangurinn einn og sér en á næsta skólaári bætist nýr árgangur við og bekkurinn breytist í 1.-2. bekk.  Þessi bekkjarheild helst saman upp alla skólagönguna þar til að 10. bekkur útskrifast. Bekkjarkennari hefur umsjón með bekknum að útskrift á elsta stigi.

Viðfangsefni 1.-2. bekkjar eru íslenska og stærðfræði, listir og handverk, formteikning, heimilisfræði, umhverfismennt og garðyrkja, lífsleikni og félagsþroski, hrynlist og hreyfing.

Viðfangsefni 3.-4. bekkjar eru íslenska, stærðfræði og formfræði, enska og danska, landafræði, umhverfismennt og útivist, garðyrkja, listir og handverk, lífsleikni og heimilisfræði, lífsleikni og félagsþroski.

1. bekkur

Að hefja skólagöngu er stórt skref, bæði fyrir barnið og foreldrana. Fyrsti bekkur er dásamleg byrjun á spennandi tíu ára ferðalagi.

Skapaður er góður hrynjandi í deginum, vikunni og skólaárinu sem hjálp fyrir barnið svo að sköpunarkraftar þess fái að blómstra hvort heldur sem er í leik eða starfi.

Á þessum aldri lifir barnið sterkt í heimi ævintýranna, sagnahefðin er miðpunktur kennslunnar. Kennarinn segir börnunum sögur og virkjar þar með ímyndunarafl og tilfinningalíf þeirra. Sögur fela í sér fróðleik um lífið og þegar barnið hlustar, skapar það myndir innra með sér af því sem það heyrir. Ævintýrið, þulur og vísur veita innblástur sem endurspeglast í skapandi athöfnum barnanna t.d. í leikjum þeirra eða teikningum. Einnig er oft unnið áfram með söguna í formi brúðuleikrits eða gert leikrit með börnunum.

Söngur skipar stóran sess og tengist náttúrunni og árstíðunum. Börnin spila saman á pentatóniskar flautur og lýrur. Í hrynlistinni er lögð áhersla á eftirhermun með leikrænni tjáningu, á ljóðum og ævintýraleikjum.

Leikurinn skipar stóran sess í skóladegi barnanna enda undirstaða þess að barnið komist í betri snertingu við umhverfi sitt og sjálft sig. Börnin fást við ýmis verkleg störf í dagsins önn svo sem málun, bakstur, tálgun, tónlist, hrynlist, eða störf sem eru árstíðabundin eins og t.d. garðyrkja og berjatínsla. Sú vinna þjónar tilgangi og er hluti af stærri heild því þannig endurspeglar það innra líf barnsins, þar sem 6 ára barnið upplifir sig sem hluta af heildinni.

2. bekkur

Sagnahefðin heldur áfram að vera miðpunktur kennslunnar. Hún opnar barninu dyr inn í heim skriftarinnar.

Nemendur byrja að búa til sínar eigin skóla- og vinnubækur, sem þau halda áfram að gera út alla skólagönguna. Einnig hefst kennsla í erlendum tungumálum. Tungumálakennslan fer fyrst fram í gegnum vísur og söngva sem nemendur læra utan að og þróa þannig með sér eins konar rytmíska þekkingu á framburði og tungumáli.

Í reikningi er alltaf gengið út frá heildinni, henni er skipt niður og byggð aftur upp. Reikniaðferðirnar fjórar eru kenndar á myndrænan hátt, í gegnum sögur, hrynjanda og formteikningu.

Hreyfing, leikur og kennsla eru órjúfanleg heild. Formteikning, málun og hrynlist er mikilvægur grunnur í kennslu bókstafa og skrift. Vatnslitamálun og vaxlitateikning er stór þáttur í námi nemenda. Í handmennt læra nemendur rökhugsun í gegnum prjónaskap. Í tálgun er unnið áfram út frá sagnahefðinni og börnin öðlast aukna færni í mismunandi efnistökum.

Í stundatöflu er einnig tónlist, hljóðfæraleikur og söngur. Færni á flautu og lýru er æfð og fléttast hreyfing og leikur inn í sameiginlega tónlistarsköpun.

3. bekkur

Í 3. bekk hefur kennarinn kynnst barninu vel og gegnir nú lykilhlutverki í skólagöngu nemandans. Kennarinn ber ábyrgð á að leita jafnvægis í kennslunni þannig að mismunandi eiginleikar í persónuleika nemenda fái að notið sín.

Dæmisögur og goðsagnir eru grunnurinn að náminu. Í sögunum birtast dýr og menn sem bera mannlega styrk- og veikleika. Nemendur geta með því að setja sig í spor söguhetjunnar öðlast samkennd með öðrum og séð heiminn í gegnum athafnir annara. Þau teikna og skrifa í vinnubækur stuttar setningar og eða texta. Kennslan byggir á innri upplifun á því sjónræna og listræna.

Í tungumálatímum er notast við munnlega kennslu kennarans og nemendur nota færni sína í eftirhermu. Í reikningi eru reikningsaðferðirnar fjórar kenndar með áherslu á að sýna samband margföldunartöflu og deilingu.

Í tónlistarkennslunni er notast við pentatóníska fimmtóna skalann og í hrynlist er áhersla lögð á hringformið. Hringurinn er samfélagsleg æfing og tákn hina órjúfanlegu bekkjarheild. Æfingarnar sem eru kenndar eru hugareflandi og viljastyrkjandi, þar sem allur hópurinn myndar stórt og fallegt form úr litlum einstaklingsformum.

Málun, formteikning og tilraunir með liti er hluti kennslunnar. Í handverki er lögð áhersla á jafnvægi milli huga og handar. Í handmennt búa nemendur til handavinnupoka sem þau sauma í nafnið sitt og geómetrískt mynstur. Í tálgun læra þau að saga og pússa og æfa áfram fínhreyfingar handanna.

4. bekkur

Á þessu aldursstigi finna nemendur fyrir aukinni einstaklingsvitund og fá nýja sýn á umhverfi sínu. Nemendur bregðast nú við á meðvitaðri hátt en áður. Það er áskorun fyrir kennarann að halda því trausti sem barnið hefur hingað til borið til háns, því hugsun þess er að þroskast: ég er ég og þú ert þú – en hver ert þú?

Umfjöllun um aldagamlar starfsgreinar s.s. landbúnað, garðyrkju, sjómennsku, brauðgerð, skósmíðar og trésmíðar, opnar nemendum dyr inn í umheiminn. Hvernig hann er uppbyggður og hvernig allt virkar. Hvernig bakar maður brauð? Hvernig býr maður til ost? Hvernig byggir maður hús? Hvernig ræktar maður matjurtir? Hvaða plöntur og dýr hefur jörðin að geyma? Hvað þarf manneskja að kunna til að lifa af? Sveitin og þéttbýlið verður nemendum raunveruleg fyrirmynd og þau læra samhengi hlutanna, orsök og afleiðing náttúrulegrar og mannlegrar tilveru.

Með því að heyra sögur úr Gamla Testamentinu fá nemendur innsýn í styrkleika og breyskleika mannlegs eðlis. Siðferðileg hugtök og persónur taka á sig form í gegnum listræna vinnu og textagerð í vinnubókinni.

Í tónlistarnáminu eru fleiri hljóðfæri kynnt til leiks og nótnalestur innleiddur. Unnið er að myndrænni uppbyggingu tónbila og tóna til að efla hlustun nemenda. Formteikningi tekur á sig flóknari mynd og krefur nemendur um aukin einbeitingarkraft og samhæfingu hugar og handar. Í tungumálakennslunni eru textar teknir til umfjöllunar og unnið með réttritun og málfræði. Nemandinn lærir að forma hugsanir sínar í ritað mál.

Nemendur halda áfram að efla færni sína í hinum fjórum reikningsaðferðum og finnur kennarinn leiðir til að tengja reikning við daglegt líf nemenda svo sem gang tímans og klukkunnar, virði hluta og hvað þeir kosta, hverjar eru mælieiningarnar sem stuðst er við í heimilisfærði svo sem bakstri og eldamennsku og metrakerfið er nýtt til að ákvarða lengdir og breiddir í húsbyggingu og smíði. Gömlu störfin fléttast inn í handmennt þar sem nemendur komast í snertingu við ullina, þvo hana og hreinsa, tog og þel er þó aðskilið, ullin er kembd og spunnin. Nemendur læra að hekla og tálga nytjahluti svo sem bréf- og smjörhnífa.