Hugsun

Aldurskeið 14-21 árs

Þriðji fasinn, hugsun, nýtir í grunninn það sem þegar hefur fengið tækifæri á að vaxa fram, vilji og tilfinningar. Nú þroskast hinir vitsmunalegu kraftar nemenda. Í gegnum vinnu með vilja og tilfinningu fyrir kynþroskaskeið þroskast eigin hugsun og úr því sprettur dómbærni. Aðferðafræði kennslu á unglingastigi byggir á að nemendur læri í gegnum rannsóknir og vísindi, þar sem lærdómsferli nemenda er í miðpunkti.

Unglingurinn

Við kynþroska verður afgerandi breyting á skólagöngu unglingsins og viðhorfi háns til skólans og námsins. Vitsmunalífið losnar úr viðjum sínum, sprettur fram frískt og heilbrigt og þyrstir í þekkingu og innsýn sem byggir á vitsmunalegu ferli, á hugsun og rökum. Sé grunnurinn vel byggður, sé tilfinninga- og viljalífið frískt, heilbrigt og virkt, þá sprettur hugsunin fram skínandi skörp, lifandi og fjörug; tilbúin að kljást við hvaða vitsmunalega ferli sem vera ber. Á þessum aldri er það skólun hugsunarinnar sem er meginmarkmiðið, fagið verður áberandi. Leiðarljós kennslunnar er að „Veröldin er sönn“. Unnið er að skilningi nemanda á fyrirbærum veraldarinnar og efnisheimsins þannig að þau upplifi sannleikann í því sem þeim kemur fyrir sjónir. Unglingurinn vill upplifa samhengi hlutanna og vera hluti af því samhengi. Dómgreind þeirra er efld, hún stígur fram sem æ öflugra verkfæri í þeirra eigin höndum.