Byggingar

Í Lækjarbotnum er fjöldi bygginga sem tilheyra skólanum, hér fyrir neðan má lesa sér til um þær byggingar sem skólinn nýtir í kennslu.

Kennslustofur

Bekkjarstofurnar eru í þrem byggingum, í Rauða húsinu eru nemendur í 1.-2. bekk og 3.-4. bekk. Í þeirri byggingu er einnig matsalur skólans. Í vesturálmunni er leikskólinn með sér inngang og í raun aðskilinn skólaálmunni. Í Ljósbláa húsinu er 5.-6. bekkur ásamt 7.-8. bekk og í Dökkbláa húsinu er 9.-10. bekkur sem og hrynlista- og tónlistarstofan.

Græna húsið

Í Græna húsinu er skrifstofa, kennaraaðstaða, bókasafn, sérkennsluherbergi ásamt handavinnustofu.

Smíða- og leirkofinn

Í Smíða- og leirkofanum fer fram viðar- og leirvinna. Kofinn er á móti sólu og á vorin og haustin er hægt að vinna á pallinum. Ró og friður er á meðan leirinn mótast í höndunum og nemendur fá tækifæri á að vinna á fjölbreyttan máta með við.

Eldsmiðjan

Við hlið litla læk stendur eldsmiðjan. Þaðan heyrast reglulega högg nemenda á járn og steðja og eldurinn logar glatt undir handleiðslu eldsmiðs.

Skemman og bakaríið

Skemman er fjölnota bygging sem skiptist í stóran sal, búningsherbergi og inn af salnum er „bakarí“ og eldofn. Við hátíðleg tækifæri breytist salurinn í sirkussmiðju eða leikhús og við tilefni er boðið upp á kaffi, bakkelsi eða flatbökur.

Tálgunarkofinn

Í litlum kofa á skólalóðinni í skjóli birkitrjáa er tálgunarkofinn. Þar inni geta nemendur setið í hring á viðarbekkjum og tálgað, við hlið kamínu sem hitar upp kofann þegar kalt er úti.

Hænsnakofinn

Skólinn er með lítið hænsnabú þar sem íslenskar landnámshænur spranga um undir vökulum augum hanans. Yngstu nemendur fá leyfi til að ná í egg sem notuð eru við matseld í skólanum.