Leiksvæði
af náttúrunni og skólasamfélaginu.
Skólalóðin
Skólalóðin hefur mótast undanfarna áratugi með þátttöku foreldra, starfsmanna og nemenda Waldorfskólans. Lóðin er í dalverpi, umkringd skjólgóðum hæðum og bæjarfjallinu Selfjalli. Þar stendur hæst Kistan, álfaborg sem heldur verndarskildi yfir starfseminni. Trjáplöntur hafa verið gróðursettar sem mynda skjólbelti fyrir leiksvæðið. Skólagarðar eru á skólalóðinni og hafa allir árgangar og leikskólinn sinn eigin matjurtagarð. Svæðið er byggt upp þannig að það henti sem leik- og námsvettvangur fyrir alla aldurshópa.
Útinám
Að lifa í tengslum við hrynjanda árstíðanna og upplifa hin sterku náttúruöfl styrkir lífskraft, sjálfsvitund og skapar virðingu fyrir náttúrunni og því sem hún gefur af sér. Í Lækjarbotnum hefur útikennsla verið stunduð frá stofnun skólans. Fög eins og náttúrufræði og átthagafræði eiga greiðan aðgang þar sem skólalóðin verður vettvangurinn og staðreyndir fræðinnar verða að þekkingu. Nestisferðir eru farnar í hverri viku um næsta nágrenni þar sem nemendur læra að lesa í landslagið, taka eftir séreinkennum þess og upplifa veður og vind á eigin skinni.
Vatn
Vatnið seyðir manninn til sín, rennandi eða frosið sem snjór og ís. Rennandi vatn gefur ótal möguleika til leikja á öllum aldri og vatnströppurnar eru seyðandi að sjá og heyra. Þær eru steyptar eftir rannsóknum á kröftum og hreyfingum vatnsins og hreinsandi eiginleikum þess. Vatnströppurnar gefa öllu svæðinu nýjan kraft bæði til vaxtar og einnig til sköpunar. Lækurinn ber báta og blöð sem ýtt er af stað og ber þau alla leið í tjörnina.
Eldur
Eldurinn er frumkraftur sem manneskjur á öllum aldri lokkast að. Mikilvægt er að þekkja hann, til að geta umgengist hann af virðingu og varkárni. Í miðju leiksvæðinu er eldstæði og einnig á fleiri stöðum. Hlóðir eru notaðar til að elda og baka mat, brauð og pönnukökur og einnig til að hita potta til að jurtalita garn og fleira. Eldurinn er inni í leirkofanum, í tálgunar kofanum, í eldofninum, í bakaríinu og auðvitað í eldsmiðjunni. Meðvitað litavali í gróðursettum blómum á svæðinu gefa til kynna að kraftur eldsins er einnig í náttúrunni.
Loft
Loftsins er hægt að njóta í sveiflu í kaðli eða í rólu. Flugdrekar leika í loftinu og börnin standa í roki á brún hæðanna til að finna kraft vindanna. Vindmyllur og vindbelgir gera vindinn sýnilegri. Á veturna verður þessi kraftur einnig til þess að við þurfum að hjálpast að við að komast um, eldri nemendur hjálpa þeim yngstu í morgungöngunni frá rútustæðinu.
Jörð
Jörðin er allt í kring og hægt að róta í sandi og mold, steinum og möl. Í garðyrkju kynnumst við jörðinni vel og lærum að skilja hvernig plönturnar teygja sig niður í jarðveginn og hvaða lífeðlislega starfsemi á sér stað undir yfirborðinu. Steinar og gras eru allt hluti af leikvellinum og með því að raða saman, svo sem í Völundarhúsinu, eru endalausir möguleikar á að nýta hringlaga gönguleið sem hluti af leik. Fjöllin og hæðirnar allt um kring eru hluti af leiksvæðinu og mikilvægur vettvangur kennslu í Waldorfskólanum.