Hátíðir
Hlutverk hátíða
Hver hátíð á sér aðdraganda, nemendur fyllast eftirvæntingu og tilhlökkun, sem nær sínum hápunkti á sjálfum hátíðisdeginum.
Fyrir utan sjálfar hátíðirnar eru haldnar ýmsar aðrar uppákomur sem einnig hafa það markmið að styrkja félagstengsl skólabarna sín á milli ásamt tengslum skóla og heimilis. Þannig er sköpuð heildræn tilvera fyrir nemendur.
Mikjálsmessa
Drekaleikurinn fer fram í Furudal, undir skugga Drekaskógarins sem er í nágrenni skólans. Leikurinn varir í heila viku og allir nemendu og kennarar taka þátt. Í Drekaleiknum verður til lítið þorp í Drekadal þar sem þorpsbúar sinna ýmsum verkefnum svo sem að baka brauð, elda mat, lita ullarband, tálga og gæta elds og bús.
Í Drekaskógi eru drekarnir ógurlegu og þangað fara hugrakkir riddarar í leit að frægð og frama. En drekarnir verða ekki sigraðir fyrr en drekagullið finnst og þorpsbúum tekst að umkringja þá með söng.
Luktarhátíð
Þemadagar
Á þemadögum haustannar eru haldnir handverksdagar þar sem unnir eru ýmsir munir fyrir jólabasarinn. Allir nemendur skólans koma saman og skiptast niður í hópa þvert á árganga. Markmiðið er meðal annars að styrkja félagsleg tengsl á milli aldurshópa. Verkefnin eru fjölbreytt og endurspegla áherslur skólans í efnis- og verkefnavali. Ýmsir fallegir munir verða til á þemadögum og vel er vandað til verka, afrakstur verður seldur á hinum árlega jólabasar Waldorfskólans
Jólabasar
Jólabasarinn er árviss viðburður í nóvember. Hann er í senn fjáröflun og kynning á því starfi sem fram fer í Lækjarbotnum og skemmtilegur vettvangur fyrir börn og fullorðna að mætast við handverksvinnu. Börn, foreldrar, starfsfólk skólans og leikskólans taka sameiginlega þátt í undirbúningi basarsins, í hugmyndavinnu sem og framkvæmd.
Nemendur setja upp brúðuleikhús og barnakaffihús, eldbakaðar pizzur, jurtaapótek, tónlist, töfrar og vandaðir handverksmunir. Við undirbúning og framkvæmd Jólabasarsins er sköpuð skemmtileg stemmning sem börn og fullorðnir taka þátt í og beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu.
Aðventugarður
Sá siður hefur skapast í Waldorfskólum um allan heim að innleiða aðventuna á táknrænan hátt. Aðventugarðurinn er alltaf haldinn fyrsta sunnudag í aðventu og er hátíð þar sem nemendur, foreldrar og kennarar koma saman.
Aðventugarðurinn er stór spírall, formaður úr grenigreinum á gólfi salarins. Í miðjunni er kveikt á stóru kerti og athöfnin felst í því að hvert barn gengur inn í spíralinn með kerti, sem komið hefur verið fyrir í epli, inn að stóra kertaljósinu í miðjunni, kveikir á sínu kerti og kemur því fyrir í spíralnum á leiðinni til baka út úr spíralnum.
Á þennan hátt erum við minnt á ljósið sem við nú í skammdeginu þurfum að bera innra með okkur. Eplin eru tákn fyrir jörðina og þann ávöxt sem hún ber. Að ganga inn að miðju táknar að koma til sjálfs síns en að ganga út úr spíralnum táknar að koma til annarra.
Jólaskemmtun
Á jólaskemmtun fá foreldrar að upplifa eitt og annað sem nemendur hafa fram að færa af því sem sprottið hefur fram í skólastarfinu á haustönn. Á skemmtuninni eru sýnd leikrit, sungið fyrir foreldra og aðrar listrænar uppákomur.
Þrettándinn
Þegar síðasti jólasveinninn yfirgefur mannabyggðir þá er haldin álfabrenna á skólalóðinni og til að fagna nýju ári er flugeldum skotið á loft.
Þorrablót
Blótað er Þorra í skólanum. Allir bekkir borða saman í salnum og skiptast á að fara með rímur, ljóð eða söngva undir borðhaldi.
Sólakaffi
Þegar daginn tekur að lengja og það sést loks aftur til sólar í Lækjarbotnum, höldum við hátið og fögnum endurkomu sólarinnar. Sólarkaffið er í fyrstu viku í febrúar, þegar fyrstu sólargeislar ársins skína inn í Rauða húsið. Fluttur er hinn sígildi leikþáttur um veðmál sólarinnar og norðanvindsins. Eftir að hafa stigið sólartrommu-dansinn gæðum við okkur á vöfflum og sólarsafa.
Páskaskemmtun
Foreldrum og aðstandendum er boðið á skólaskemmtum fyrir páskafrí. Þar eru nemendur með ýmsar uppákomur sem sprottnar eru úr skólastarfinu á haustönn tengt námsefni vetrarins.
Ólympíuleikar
Ólympíuleikar eru settir upp í anda hinna upphaflegu forn-grísku leika og sameinast allir nemendur skólans sem þátttakendur á sérstökum íþróttadegi, en haldin er vikulöng íþróttahátíð í tengslum við leikana.