Með eitt lítið hús á fallegum stað og rútu og snjóruðningstæki á hlaðinu, hóf fyrsti Waldorfleikskólinn á Íslandi starfsemi sína 1. desember 1990 og fékk nafnið Ylur.  Það voru nokkrir vinir með börn á leikskólaaldri sem vildu að börnin þeirra gætu verið í náinni snertingu við náttúruna og fengið uppeldi og menntun í anda hugmyndafræði Steiners.  Öll áttu þau það sameiginlegt að hafa lært mannspeki á erlendri grund og kynnst starfseminni á Sólheimum í Grímsnesi.  Einu ári eftir að leikskólinn Ylur var stofnaður hóf Waldorfskólinn í Lækjarbotnum starfsemi sína með fjóra nemendur í 1. Bekk.  Nú hefur húsakosturinn stækkað umtalsvert og í Lækjarbotnum dvelja daglega um 100 manns á öllum aldri, við leik og störf.

Það fyrsta sem maður  tekur eftir er staðsetning skólanna í Seldal í faðmi Selfjalls.  Hraunflæmi mikið umlykur dalinn, hraunhellir og gljúfur skammt frá og undan hrauninu sprettur Litlilækur silfurtær. Í dalnum skiptast á klettar, melar, lyngmóar og í dag er einnig skógargróður allt um kring.

Þó að staðsetning skólanna sé óvenjuleg og heillandi, þá er það fyrst og fremst innihaldið, það starf sem fram fer með börnunum sem er sérstakt.

Það er okkar framtíðarsýn að hér í Lækjarbotnum dafni starfsemi og samfélag sem byggir á mannlegum og félagslegum gildum með áherslu á sjálfbærni og menningarlegan margbreytileika. Við sjáum fyrir okkur stað sem hefur sterkt innra líf en er jafnframt opinn öllum að njóta.