Fréttir, Hátíðir

Aðventugarður sunnudaginn 27. nóvember

Sá siður hefur skapast í Waldorfskólum um allan heim að innleiða aðventuna á táknrænan hátt. Aðventugarðurinn er alltaf haldinn fyrsta sunnudag í aðventu og er hátíð þar sem nemendur, foreldrar og kennarar koma saman.

Aðventugarðurinn er stór spírall, formaður úr grenigreinum á gólfi salarins. Í miðjunni er kveikt á stóru kerti og athöfnin felst í því að hvert barn gengur inn í spíralinn með kerti, sem komið hefur verið fyrir í epli, inn að stóra kertaljósinu í miðjunni, kveikir á sínu kerti og kemur því fyrir í spíralnum á leiðinni til baka út úr spíralnum.

Á þennan hátt erum við minnt á ljósið sem við nú í skammdeginu þurfum að bera innra með okkur. Eplin eru tákn fyrir jörðina og þann ávöxt sem hún ber. Að ganga inn að miðju táknar að koma til sjálfs síns en að ganga út úr spíralnum táknar að koma til annarra.