Fréttir, Hátíðir

Drekaleikurinn í Furudal

Í síðustu viku breyttust nemendur og starfsfólk skólans í þorpsbúa, engla og dreka. Farið var út eftir morguntíma eða um 10:30 og voru þorpsbúar við störf  í Furudal þar til í lok skóladags.

Mörg handtök voru unnin í að byggja einföld hús, gera hlóðir, kveikja elda, baka pinnabrauð, tálga fagra hluti, jurtalita ullarband og ekki síst að leita að drekagullinu og berjast fyrir hið góða með samstarfi og hugrekki að leiðarljósi.

Hápunkturinn var þegar foreldrar og aðstandendur komu og lögðust allir á eitt um að ráða niðurlögum drekavaldsins með því að slá hring í kringum drekana og syngja saman þannig að þeir umbreyttust í manneskjur, að því loknu var boðið upp á drekasúpu og drekablóð.