Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Þorvarður Hafsteinnson formaður Heimilis og skóla, ásamt fríðu föruneyti komu í heimsókn í skólann þann 12. maí síðastliðinn. Þann dag var einnig síðasti dagur Ólympíuleikana hér í Lækjarbotnum. Liðin kepptu í kúluvarpi, kaðalstökki, spretthlaupi, hástökki og langstökki, dósakasti, kassabílaakstri, Brooklynbolta, boðhlaupi og reipitogi. Öll lið eru skipuð nemendum úr öllum árgöngum, frá 1. bekk og upp í 10. bekk og er liðsandinn því ekki síður mikilvægur en keppnisskapið.
Waldorfskólinn Lækjarbotnum er handhafi Foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2022 og er heimsóknin liður í að kynnast skólastarfinu, sérstöðu þess, gæðum og áskorunum. Foreldraverðlaunin 2022 fékk skólinn fyrir „Gróðursetningu plantna á skólasetningu“, en nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa gróðursett trjáplöntur ár hvert, eitt fyrir hvern nemanda, síðastliðin þrjátíu ár eða frá upphafi skólahalds í Lækjarbotnum. Foreldrafélag skólans fékk einnig viðurkenningu fyrir „Vinnudag foreldra“, en sá dagur er haldinn einu sinni á önn og taka foreldrar og nemendur þátt í að fegra umhverfi skólans og sinna viðhaldsvinnu á byggingum og skólalóð.