Fréttir

Skólaferðalag 10. bekkjar norður í Svarfaðardal

Í upphafi skólaársins heimsóttu nemendur Waldorfskólans Lækjarbotnum Syðra-Holt í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð í tengslum við vistfræðilotu í skólanum. Nemendur  kynntust lífrænni ræktun og moltugerð hjá heimafólki en bændur á Syðra-Holti stunda lífræna ræktun og vistrækt (Permaculture). Vistrækt er heildrænt hönnunarkerfi sem leitast við að líkja eftir náttúrunni við ræktun og matvælaframleiðslu og hefur að leiðarljósi sjálfbæra og umhverfisvæna landnotkun, uppbyggingu jarðvegs og jafnvægis í samfélagi manna, plantna og dýra. Nemendur fengu fræðslu um hvernig á að nota matarafganga og lífrænan úrgang til að búa til moltu sem bætir jarðveg til áframhaldandi ræktunar ýmissa nytjaplantna án þess að tæta jarðveginn með tilheyrandi kolefnislosun. Einnig tóku nemendur virkan þátt í uppbyggingu skjólbeltis, með tilheyrandi lífrænni áburðargjöf, og gróðursetningu trjátegundanna aspar, reynis og víðis sem plantað var með reglulegu millibili og umhyggju í vel undirbúinn jarðveginn.